Æfingahelgi Snæfellsjökli

Um helgina var haldin æfingahelgi í snjóflóðaleit á Snæfellsjökli.

Mætt voru 21 teymi ásamt harðduglegum aðstoðarmönnum frá Patró. Gist var á þeim góða stað Gufuskálum og fór vel um bæði hunda og menn. Æft var á þremur svæðum og leiðbeinendur voru þau Ingimundur, Auður og Dóri. Nú eru margir ungir hundar í sveitinni að stíga sín fyrstu skref í snjó og stóðu þeir sig frábærlega. Það var ótrúlegt að sjá þessi litlu kríli grafa sig sjálf í gegn og skutla sér niður í holurnar, en þar beið fígúrantinn með einhver góð verðlaun.

Einn hundur tók C-próf, en það var hann Kópur með Önnu sér við hlið og stóðu þau sig með prýði. Aðstaða til æfinga var góð þótt gengið hafi á ýmsu við að klóra sig upp að jöklinum.

Fórum við upp Ólafsvíkurmegin og komumst í góðan æfingasnjó og lítið mál að grafa holur inn í brekkurnar sem skafið hafði yfir. Þeim á Auðar svæði (aðallega Snorra) tókst þó að koma af stað dálitlu snjóflóði, en Snorri segir að það hafi verið gert til að æfa við raunverulegar aðstæður. Fyrri daginn var dálítið kalt, vindur og skafrenningur en svo lagaðist veðrið og var fínt þar sem eftir var. Á laugardagskvöldið var sameiginlegur kvöldmatur sem Bríet stóð fyrir. Kom hún með fisk að vestan, steinbít (og ýsu fyrir barnamatseðilinn) sem hún djúpsteikti í orlý deigi og allir hjálpuðust að við að útbúa dýrindis máltíð. Í eftirrétt var svo kakósúpa með tvíbökum og rjóma. Það var mál manna helgin hafi tekist sérlega vel og allir hundar í góðum málum í snjóflóðaleitinni. Næst er það vetrarnámskeiðið sjálft sem fram fer um miðjan mars og væntanlega fer það fram við Kröflu, en það er þó undir snjóalögum komið.