Björgunarhundar fundu – óvænt :)

Eigendur björgunarhundanna okkar þurfa alltaf að halda hundunum í þjálfun þar sem að við vitum aldrei hvenær kallið kemur. En sá skemmtilegi atburður átti sér stað í gær þegar tveir félagar okkar í BHSÍ, þær Auður og Ólína með hundana Skutul og Skímu voru við æfingar að hundarnir fóru óvart aðeins út fyrir æfingaprógrammið sitt 🙂 Ólína segir frá þessu :

Björgunarhundarnir okkar Auðar, þau Skutull og Skíma, fundu óvænt þessa tvo ferðalanga uppi í fjalli þar sem við vorum að æfa leit að fólki. Þessi fundur var ekki á æfingaprógramminu en hundarnir voru mjög hróðugir þegar þeir höfðu vísað okkur á blessað fólkið þar sem það sat alveg óviðbúið þegar hundarnir komu hvor úr sinni áttinni með örstuttu millibili og upphófu serimóníur sínar við að sækja okkur Auði og vísa á fundinn. Þetta var fínasta viðbót við æfinguna og fólkið hafði bara gaman af að fá að sjá hvernig þetta gengur fyrir sig þegar leitarhundar finna og vísa á „týndar“ manneskjur.