Fígúrantar – „Farinn í hundana“

Hinn týndi (hér eftir nefndur fígúrant)

Það er ekki nóg að hafa áhugann og hundinn til að fara að þjálfa björgunarhund því ef þú hefur engan fígúrant þá er einfaldlega ekki hægt að byrja að æfa. Fígúrantinn er sá sem skiptir hvað mestu máli í æfingarferlinu. Fígúrantar geta verið af öllum stærðum og gerðum, aldur skiptir ekki máli og í raun best að hafa sem breiðastan aldurshóp svo hundurinn sé öllu vanur.

Hlutverk fígúrantsins er að ganga út í mörkina leggjast þar í grasið, fara bakvið steininn eða upp á næsta hól. Stundum er gangan löng og stundum er hún bara nokkrir tugir metra. Allt þetta byggir bara á getu fígúrantsins þannig að hægt er að setja upp æfingu þar sem 5 ára barn felur sig og í sömu leitinni er mikill göngugarpur á fimmtugsaldri, barnið fer bakvið næsta hól í ca. 60 metra fjarlægð frá byrjunarreitnum meðan göngugarpurinn gengur í góðan hálftíma áður en hann kemst á staðinn sem honum er ætlað að vera. Æfingar sem settar eru upp fyrir mjög unga hunda byggjast á að fígúrantinn sé áberandi og skokki 50-100 metra, hendi sér þar í jörðina og öllu þessu fylgist hundurinn með og þýtur af stað þegar skipunin er gefin. Æfingar fyrir lengra komna hunda byggjast upp á því að setja upp hæfilega stór svæði sem getur tekið um og yfir tvær klukkustundir að leita og hundurinn mætir bara á svæðið þegar búið er að setja upp æfinguna þ.e. hefur ekki séð neitt af því sem gert hefur verið og þarf að vinna allt svæðið. Hér er ég aðeins búin að reyna að gefa ykkur innsýn í fígúrantavinnuna og hversu nauðsynlegir fígúrantar eru og án þeirra er einfaldlega ekkert hægt að gera.

Til gamans má geta þess að vestfirsku-fígúrantarnir eru ekki bara eftirsóttir á sínu heimasvæði heldur koma þeir með á námskeið hingað og þangað um landið og á þessu ári hafa þeir komið t.d. á Sólheimajökul og þá var gist í Drangshlíð, Suðurlandið rétt utan við Selfoss og var þá gist á Bitru, Snæfellsnesið og þá var gist á Gufuskálum og næstu tvær ferðir eru einnig áhugaverðar, í ágúst verður væntanlega farið í Reykhólasveitina og í september verður farið í Þórsmörk. Allir þeir sem hafa hafa gaman af annað hvort hundum, útiveru og/eða ferðalögum ættu því að skoða hvort það er ekki bara ævintýraheimur að ?fara í hundana?

Við hvetjum alla þá sem áhuga hafa á vinnu með hundum að hafa samband við okkur og kynna sér það sem við erum að gera og skoða hvort ekki væri bara góð tilbreyting í hversdagsleikann að smella sér í útigallann og aðstoða við þjálfun björgunarhunda……. og hver veit nema þér þyki þetta það gaman að á þessum tíma á næsta ári verður þú sjálfur kominn með björgunarhund í þjálfun og með allar klær úti við að útvega fígúranta.

Hér fyrir vestan höfum við verið heppin þar sem fjölskyldur okkar eru einnig „farnar í hundana“ og aðstoða okkur hundaþjálfarana við allt ferlið og án aðstoðar þeirra væru öll sund lokuð fyrir okkur. Hér viljum við koma á framfæri þökkum til þeirra og allra sem hafa hjálpað okkur gegnum tíðina án ykkar værum við ekki með svona líflegt björgunarhundastarf  á Íslandi.

Hjartans þakkir fyrir alla hjálpina

Fh. Björgunarhundasveitar Íslands
Bríet Arnardóttir
Patreksfirði