Frábærri kynningarhelgi lokið

Nú er frábærri helgi á stórhundadögum í Garðheimum lokið. Félagar okkar í sveitinni stóðu vaktina ásamt ferfætlingunum þeirra laugardag og sunnudag. Óhætt er að segja að fullt var út úr dyrum báða dagana og margir áhugasamir um starfið okkar í sveitinni og aðrir voru áhugasamir um að hitta hundana. Það komu margar spurningar frá fólki sem kom og hitti okkur og tilvalið er að svara þeim hérna líka.

Eru ekki bara hreinræktaðir hundar í björgunarsveitinni ? svar: – Nei það eru alls ekki bara hreinræktaðir hundar hjá okkur í þjálfun, langflestir eru blendingar af meðal annars, labrador, border collie og íslenska fjárhundinum. Hjá okkur eru líka á þjálfun schaffer og við erum einnig með einn Husky.

Hvenær er best að byrja að þjálfa hundana? Svar: -Bara sem fyrst! Umhverfisþjálfun er til dæmis mjög mikilvæg fyrir hundana og því fyrr sem byrjað er á því við hvolpa því betra. Svo eru nánari upplýsingar um próf og aldur hunda í prófum hérna undir skráarsafn á síðunni.

Geta allir hundar orðið björgunarhundar? Svar: – Það geta langflestir hundar lært æfingarnar sem við setjum upp fyrir þá en ekki allir hafa úthald til að geta leitað í vondum veðrum, í langan tíma og við erfitt landslag. Það er því mikilvægt að hundarnir séru hugaðir og með mikinn vinnuvilja til að halda áfram í mörkinni alveg sama hvað.

Geta svona vinnuhundar alveg búið inni á heimili? Svar: – Já, allir okkar hundar búa inni á heimili hjá eigendum sínum.

Við viljum þakka fyrir skemmtilega helgi og gaman að sjá hvað margir komu við á básnum hjá okkur til að forvitnast um starfið okkar.