Fundur í fyrstu leit

Eftir Aud Ingebjørg Heldaas í Redningshunden (málgagni Norske Redningshunder) nr. 3, 2006 48. árg. Þýtt af Þóri Sigurhanssyni félaga í BHSÍ og NRH í nóvember 2006.

Að loknu sumarúttektarprófi í Haslemoen í ágúst, hugsaði ég með mér JÁ! nú er bara að hringja, kæri svæðisstjóri. Og það hefur reyndar svæðisstjórinn okkar, hann Svenn Erik Simensen, margsinnis gert. Það var þó í fyrsta skipti, miðvikudagskvöld eitt í september, sem útkallið var ekki afturkallað eftir tuttugu mínútur eða svo.

Nú var alvara á ferðum, klukkan var tíu um kvöld og Trude Andersen (með hund í þjálfun) kom með í bílnum. Eldri manns var saknað en hann hafði farið að týna týtuber í Suður Odal. Leitarsvæðið var dæmigert æfingarsvæði; við höfðum einmitt verið að æfa í svipuðu umhverfi fyrir fáeinum dögum. Sá týndi, veikur fyrir hjarta, hafði sagst ætla að leita berja á nokkrum stöðum hér og þar í dalnum. Hann gekk frá heimili sínu í Galterud en hann býr þar einn í litlu húsi í skógarjaðrinum.

Hvað heldur þú að þetta útkall gangi langt áður en það verður afturkallað? Spyr ég Trude sem yppir öxlum. Við ökum til Flisa, svo til Kongsvinger. Síminn hringir. Einmitt, já…. en nei, þetta er Roar Fjellmosveen sem er, ásamt hundi sínum, á leið á leitarsvæðið. Þetta er farið að verða raunverulegt.

Og raunverulegt er það. Þegar við komum að litla húsinu þar sem hinn 81 árs gamli maður býr, sjáum við stjórnanda leitarinnar, Rolf Bakken, sem einnig er hundamaður, bogra yfir kortum á bílhúddi. Hann ræðir við lögregluna og útdeilir leitarsvæðum. Okkur er sagt að mannsins hafi verið saknað í a.m.k. einn og hálfan sólarhring. Það er kalt og dimmt. Við, ásamt hundateymi frá lögreglunni og Roar Fjellmosveen með hans hundi, leggjum af stað. Trude er Roar til aðstoðar við rötunina og mér til aðstoðar er Odd Magnus Storbråten, sem er framúrskarandi flínkur í rötun. Það er gott að hafa hann mér við hlið í þessum dimma skógi.

Toto (hundurinn minn) hefur fengið nýtt vesti með rauðu blikkljósi. Við stöndum við stíginn sem liggur á norðurmörkum svæðisins okkar og bíðum eftir að hundateymi lögreglunnar fari af stað á sínu svæði. Hundurinn sá er ekki sérlega vingjarnlegur við aðra hunda, nokkuð sem Toto var búinn að komast að á leiðinni hingað uppeftir. Hann smá vælir óþolinmóður. Ég tek eftir því í hvaða átt hann snýr trýninu, hann þefar vandlega út í loftið, en ég hugsa með mér að þetta sé sporið eftir Rolf Bakken, hundamanninn sem hafði leitað þarna eftir stígnum áður en við komum.

Lögregluhundateymið hverfur inn í myrkrið og við byrjum leitina. Svæðið er 500 x 500 metrar og vægast sagt mjög þétt. Við komumst ekki í gegnum þéttasta trjágróðurinn og verðum því að leita að leiðum til að komast áfram. Rauða ljósið hans Toto ber vitni um að hann sé ákafur í að leita. Hann kemur til okkar öðru hvoru en er óðar hlaupinn af stað á ný. Þegar við snúum við og förum upp í gegnum leitarsvæðið aftur, stoppum við á „höggnu svæði“ til að spá í hvað hundurinn sé að gera. Toto er mjög ákafur, það er enginn vindur, lítið sem hann hefur að byggja á, en hann virðist samt vera á einhverri lykt. Við bíðum en höldum svo áfram, hann fylgir okkur eftir. Ég ákveð að taka niður GPS staðsetningu af staðnum og láta vita að þarna sé áhugavert að skoða betur.

Á stígnum þurfum við að færa okkur til um 50-70 metra áður en við förum inn í skóginn aftur. Slökktu á höfuðljósinu, segir Odd Magnus. Við slökkvum á ljósunum og það verður aldimmt. – Hugsaðu þér að liggja aleinn úti í skóginum í þessu myrkri og vita ekki hvort einhver kemur að leita að þér, segir Odd Magnus.

Úff, vesalings maðurinn, segi ég. Og svo höldum við áfram að leita.

Við höfum kannski gengið nokkur hundruð metra þegar við heyrum allt í einu kröftugt og ákveðið gelt. Þetta er Toto. Hjartslátturinn rýkur upp á augnabliki.

Elgur? spyr Odd Magnus.

Kannski, segi ég. Við stöndum grafkyrr og hlustum eftir braki í greinum. Nei, Toto gefur sig ekki. Við köllum á hann og hann kemur til okkar í hendingskasti en rýkur svo geltandi af stað til baka út í myrkrið.

Nei þetta er ekki elgur. Hann á það til að gelta ef eitthvað kemur honum á óvart, til dæmis eftir langa svæðisleit (teigsøk), segi ég. Þrátt fyrir að Toto noti fastbit (bringkobbel) hef ég tekið eftir því að hann geltir ef honum bregður. Þetta er viðbragð sem allir hundar hafa í sér.

Ef þetta er elgskýr með kálf er eins gott að gæta okkar, segir Odd Magnus. Toto geltir og við heyrum að hann er á hreyfingu en hann geltir áfram, mjög ákveðinn.

Nei, þetta er manneskja!

Ég kalla á Toto og gef honum skipun um að „vísa“. Hann snarsnýst og hleypur upp á lága klettahæð. Við fylgjum á eftir og ég byrja að skilja að þetta er alvara. Toto er á fullri ferð og mjög ákafur, alveg eins og þegar hann er að finna fólk á æfingum.

Á fullri ferð upp klettahæðina. Í skímunni frá höfuðljósunum sjáum við hvíta fötu með týtuberjum. Nokkra metra þaðan lýsum við upp tvö galopin augu.

Heyrðu, liggur þú hérna maður! er það fyrsta sem ég get sagt. Við höfum fundið! Og maðurinn er á lífi! Odd Magnus tilkynnir fundinn í talstöðina, nokkuð andstuttur og ég, ekki minna andstutt, sest niður hjá manninum. Hann heitir Per. Hvort honum sé kalt? Já! Ég tek um hendur hans og segi honum að hann sé öruggur núna. Hann liggur á bakinu í blautum mosa, hálfur úr buxunum og peysan og skyrtan komnar uppundir handarkrika. Beltið hefur hann tekið af sér og hann var búinn að missa annan skóinn sinn.

Er andlitið á mér skakkt? spyr Per.

Nei, þannig er það ekki. Við opnum bakpokana, förum úr úlpunum og byrjum að pakka honum inn í einangrunarpokann og setjum á hann húfu sem við vorum með. Við reynum að vera eins róleg og við mögulega getum. Ef maðurinn er alvarlega ofkældur þarf lítið til að allt fari úr böndunum. Per segir að hann hafi fengið aðsvif. Hann heldur að það sé hjartað og segir að hann sé ekki of góður í vinstri hendi og fæti.

Batnar mér ekki örugglega vinstramegin? Spyr hann. Odd Magnus hughreystir hann og segir að þetta muni örugglega allt lagast. Við lítum á hvort annað og getum varla trúað því í hversu góðu ásigkomulagi maðurinn er, að minnsta kosti andlega.

Nokkrar mínútur líða en svo byrjar maðurinn að skjálfa. Mér léttir talsvert því ég veit að þá er hann að minnsta kosti kominn yfir vissan líkamshita. Hinir hundamennirnir eru á leiðinni en þegar þeir koma, klæðum við manninn í fleiri föt og annan einangrunarpoka til. Trude sest við hina hlið mannsins og við hlýjum hvor sína höndina á honum. Per getur ekki setið uppréttur, hann er úrvinda af þreytu. Hann sagðist ekki vera neitt sérlega spenntur fyrir annari nótt í skóginum. Klukkan er næstum tvö um nótt og Per hefur þegar verið þarna úti eina nótt. Hann fer að tala um gamla tíma, þegar hann var vinnandi maður, þegar hann var ungur, að honum líki vel við börn en að hann eigi engin börn sjálfur. Og að hann hafi góða tilfinningu fyrir áttum. Það mætti kasta honum niður úr fallhlíf hvar sem er og hann myndi finna leiðina heim, segir hann. Bara akkúrat núna væri það svolítið erfitt vegna þess hvað hann væri lélegur til heilsunnar.

Hvernig er það, finnurðu til? spyr ég.  Æ, ég hafði nú hugsað mér að lifa aðeins lengur, svarar Per og reynir að brosa.

Toto hrýtur undir tré og rauða ljósið á vestinu hans blikkar ennþá. Augun eru eins og tvö lárétt strik í brúnum feldinum. Þetta er náungi sem kann að slappa af.

Sjúkrabíllinn er kallaður til og eftir stund, sem manni finnst eins og heil eilífð, koma þrír sjúkraflutningsmenn með börur inn í skóginn. Lögregla og hundamenn eru einnig með í för. Við hjálpumst öll að við að koma Per að sjúkrabílnum og þurfum margoft að stoppa á leiðinni. Bróðursonur hans kemur út í skóginn og er feginn að frændi hans sé fundinn.

Þegar við erum komin að bílunum okkar aftur heyrum við einhvern kalla til okkar, það er bróðursonurinn sem kemur með týtuberjatínuna og vill endilega að við fáum hana sem þakklætisvott fyrir hjálpina.

Á leiðinni heim komum við við á sjúkrahúsinu í Konsvinger til að sækja fötin okkar og einangrunarpokana. Hjúkrunarfólkið segir að við höfum brugðist hárrétt við, Per hafi verið kominn í 36,5 gráður þegar hann kom til þeirra.

Það er undarleg tilfinning sem hríslast um mig þegar ég keyri heim til Elverum. Sýnin – að sjá þessi tvö galopnu augu í geisla höfuðljóssins situr föst í hugskoti mínu og í hvert sinn sem ég hugsa til þess, þá brosi ég ósjálfrátt. Svo ótrúlegt að finna þann týnda í fyrsta sumarleitarútkallinu mínu. Og svo ótrúlega gott að hafa Odd Magnus með mér, svo rólegan og öruggan. Og Rolf, sem hafði lagt upp svo gott leitarskipulag. Allir hinir, hundamenn og aðstoðarfólk sem bar börurnar og hitaði hendur og afklæddist til að klæða Per betur.

Þessi tilfinning, þó ég upplifi hana bara í þetta eina skipti á öllum þeim tíma sem við Toto eigum eftir að vinna saman, gerir alla þjálfunina erfiðisins virði.

Þakkir til allra í NRH sem komu að útkallinu þessa nótt: Odd Magnus Storbråten, Trude Andersen, Rolf Bakken, Roar Fjellmosveen og Mari Edvardsen.