Hundlaus óvissuferð

Á laugardaginn síðasta héldu félagar BHSÍ í óvissuferð í tilefni afmælis sveitarinnar sem var fyrr í þessum mánuði.

Hundarnir voru að þessu sinni skildir eftir heima, flestir ábyggilega með sárt ennið. Mætt var á Shell Ártúnshöfða klukkan 10 um morgunin og þar beið rúta eftir óvissuförum. Þaðan var haldið austur í Hestheima þar sem var tekið á móti fólki með fiskisúpu og nýbökuðu brauði. Eftir mat var svo haldið niður í reiðhöll þar sem tók við keppni í þrautabraut á hestum. Hún gekk þannig fyrir sig að skipt var í tvö lið, kvenna og karlalið og fékk hvert lið aðgang að tveimur reiðskjótum. Þetta var einskonar boðhlaup og voru þrjár stoppistöðvar hjá hvoru liði. Á þeirri fyrstu átti að taka upp stöng sem stóð upp úr gólfinu, fara með hana á næstu stöð þar sem átti að henda henni ofan í tunnu og svo á þriðju stöðinni þurfti fólk að fara af hestum sínum og fara í skeifukast. Síðan var farið á bak aftur og riðið á fullri ferð í mark.

Nú eftir spennandi og skemmtilega keppni voru það konurnar sem stóðu upp sem sigurvegarar og fengu þær verðlaunapeninga. Karlarnir voru þó ekki skildir útundan og fengu þeir líka verðlaunapeninga fyrir hugrekki og dugnað. Nú því næst tók við hin árlega Bocchia keppni sveitarinnar og var hafður sami háttur á og áður þ.e. kvenna og karlalið. Þetta var hörð og æsispennandi keppni enda til mikils að vinna, en sigurliðið fékk bikar í verðlaun. Að lokum voru það konurnar sem höfðu betur og bera nú titilinn Bocchia meistarar BHSÍ árið 2006. Karlarnir fengu bara ánægjuna af því að tapa. Eftir frábæra skemmtun var svo haldið aftur upp í hús þar sem biðu vöfflur, smákökur, heitt súkkulaði, heimabruggað jólate og tilheyrandi. Sérdeilis frábært og þökkum við Ástu Beggu og Gísla kærlega fyrir hlýlegar móttökur.

Í Hestheimum er svo sannarlega yndislegt að vera. Eftir spjall og fataskipti var svo haldið áleiðis á Eyrarbakka þar sem farið var á jólahlaðborð á veitingahúsinu Rauða húsið en þar bættist aðeins í hópinn. En því miður hafði verið mikið um forföll vegna veikinda og fleira. En þeir sem komust ekki í þetta sinn þurfa ekki að örvænta því það hefur verið ákveðið að gera þetta að árlegum viðburði héðan í frá og er fólki bent á að fara að æfa sig í Bocchia svo það hafi eitthvað í núverandi meistara á næsta ári.

Fyrir hönd sveitarinnar þakka ég Ástu Beggu og Gísla enn og aftur, Önnu bílstjóra, Sólveigu aðstoðarbílstjóra, mér sjálfri og Elínu skipuleggjendum ferðarinnar og hestasveinunum Sigurgeiri og Gretti.

Kveðja Ragga