Landsæfing 2007

Síðastliðinn laugardag fór landsæfing björgunarsveita fram undir Eyjafjöllum.

Æfingastjórn var staðsett að Skógum og var verkefnum dreift um nágrannasveitir. Aðeins þrjú teymi frá BHSÍ komust að þessu sinni en það voru: Anna og Kópur, Krissi og Tása og Snorri og Kolur.

Kolur og Kópur byrjuðu á rústaverkefni með Hjálparsveit skáta í Kópavogi og Ársæli og var verkefnið björgun úr gömlu fjósi þar sem eina inngönguleiðin var inn um op á þaki eða með því að gera hreinlega gat í vegg fjóssins. Hundarnir voru látnir leita utan við húsið og markeruðu báðir á tvo staði. Annars vegar op á vegg og hins vegar á hurð sem var lokuð en þeir gerðu sitt besta til að brjótast þar inn með tilheyrandi gelti og látum. Mjög vel leyst hjá hundunum.

Síðan tóku við tvö víðavangsleitarverkefni þar sem öll teymin tóku þátt og kláruðu þau sitt með miklum sóma. Næst á dagskrá hjá sveitinni er rústaæfing um næstu helgi en hún verður haldin á Gufuskálum.