Hundanna Blíðu, Tuma og Skolla minnst

Blíða var eftirminnilegur hundur. Fáir hundar voru ljúfari eða skemmtilegri ef því var að skipta – og fáir hundar voru sjálfstæðari og fyrirferðarmeiri þegar sá gállinn var á henni. Eins og allir eftirminnilegir persónuleikar gerði hún kröfur til eigenda sinna, lét vita af sér, en var eins og hugur manns þess á milli. Hún var ekki allra. En við náðum vel saman, ég og hún.

Blíða var þjálfuð sem björgunarhundur í tvö ár. Hún tók C-próf í vetrarleit vorið 2007, þá eins og hálfs árs gömul. Henni gekk vel í leitarþjálfuninni framan af, en svo kom í ljóst að hún var ekki nógu sterk fyrir þessa þjálfun. Hún fór að veikjast ítrekað á æfingum og sýna ýmis merki þess að ráða ekki við verkefnið. Síðastliðið sumar lauk hún ferli sínum sjálf með eftirminnilegum hætti þegar hún beinlínis fór í „verkfall“ á miðju námskeiði og var ekki æfð meira eftir það.

Ég fékk mér annan hund til að þjálfa – hvolpinn Skutul sem nú er ársgamall. Blíða aðstoðaði mig við uppeldið á honum og gerði það vel. Hún kenndi honum að hlýða manninum og var honum framan af sem besta móðir. En svo óx hann henni yfir höfuð, og samkomulagið versnaði. Loks varð ég að láta hana frá mér – það gekk ekki að hafa tvo ráðríka hunda á heimilinu, þar af annan í vandasamri þjálfun sem krafðist allrar minnar athygli.

Hún fékk gott heimili norður í Skagafirði hjá fólki sem hafði átt bróður hennar en misst hann fyrir bíl. Þau tóku Blíðu að sér, og í fyrstu gekk allt vel. En það var annar hundur á heimilinu og þeim samdi aldrei. Hún varð taugaveikluð og óörugg um stöðu sína, gelti meira en góðu hófi gegndi, og þetta gekk einfaldlega ekki upp. Þegar hún svo sýndi sig í því að urra að barnabarninu í fjölskyldunni, var ákveðið að láta hana fara. Ég skil þá ákvörðun, og úr því ég gat ekki tekið við henni aftur var betra að láta hana sofna en vita af henni á flakki milli eigenda.

Nú hvílir hún við hlið bróður síns norður í Skagafirði.Já, Blíða var eftirminnilegur hundur. Á góðum stundum var hún mikill félagi og engan hund hef ég séð fegurri á hlaupum en hana. Þannig geymi ég mynd hennar í huga mér, og sé hana nú í anda hlaupa tignarlegri en nokkru sinni fyrr um gresjurnar á hinum eilífu veiðilendum.

Blessuð sé minning Blíðu.
Ólína Þorvarðardóttir

Minning um Skolla 1999-2006

Sá sorglegi atburður átti sér stað sunnudaginn 19.mars á vetrarnámskeiði sveitarinnar að útkallshundurinn Skolli veiktist alvarlega og lést í kjölfarið á því. Um miðjan dag kom í ljós að Skolli var ekki heill heilsu og var þá farið með hann til dýralæknis á Hvolsvelli. Þar var hann skoðaður og fékk að því loknu að fara aftur í Drangshlíð. Fljótlega kom þó í ljós að Skolli þyrfti frekari aðhlynningu og var þá ákveðið að keyra með hann til Garðabæjar í nánari skoðun. Þar var ákveðið að aðgerðar væri þörf en þrátt fyrir að allt væri gert, var ekki hægt að bjarga honum og lést hann skömmu eftir miðnætti aðfaranótt mánudagsins 20.mars.

Skolli var í eigu Auðar Yngvadóttur frá Ísafirði og saman voru þau frábært teymi. Skolli og Auður náðu A gráðu í víðavangsleit árið 2002 og í snjóflóðaleit árið 2004. Saman fóru þau í fjölmörg útköll með góðum árangri og skiluðu sínu með miklum sóma.

Hundurinn Skolli var skemmtilegur karakter og var hann þekktur innan sveitarinnar sem Selurinn. Þá nafnbót fékk hann vegna þess að hann átti það til að góla eins og selur frekar en að gelta eins og hundur. Hann var orkubolti eins og sannur Border Collie og ekki vantaði kraftinn og ákveðnina í þennan frábæra vinnuhund. Það er stórt skarð höggvið í raðir sveitarinnar og erum við öll fátækari eftir dauða Skolla okkar. Við félagar í BHSÍ sendum Auði okkar og hennar fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.
Minningin um góðan hund lifir.

Fyrir hönd BHSÍ
Ragnheiður Hafsteinsdóttir og Elín Bergsdóttir

Tumi – Vinarminning

Lítill varstu kelinn og kátur
kúrðir vært í fangi mér
Lítill hnoðri vaktir hlátur
hafðir allt í hendi þér

Tíminn leið og vaskur varstu
víðförull á landi hér
Alltaf glaður, af þér gafstu
góðan vin ég fann í þér.

Týndust menn á heiðum háum,
eða hafði snjórinn hulið
Greiðlega gekk á fótum fráum
að finna þá er lentu í vá

Nú vinurinn góði genginn er
Guð mun þig nú geyma
Í huga mínum er mynd af þér
Mun ég þér aldrei gleyma

Lítið tré nú vex í vinarminni
Sem vörður minninga um þig
Ég ávallt sá í ásýnd þinni
allt það góða er tengdi þig og mig
AY

Tumi

Tumi fæddist á Stokkseyri 6.maí 1993. Ég hafði misst hvolp sem ég átti og ætlaði að fá mér nýjan. Kröfurnar voru miklar og hafði ég skoðað nokkra hvolpa en ekki fundið það sem ég leitaði að. En þegar við sáum auglýsingu í Dagblaðinu þá hringdum við og fórum til að skoða. Það var ekki aftur snúið. Heim fórum við með Tuma.

Hann var yndislegur hvolpur rólegur og blíður og mikil kelirófa. Þegar hann var um 10 mánaða byrjaði ég að fara með hann á æfingar hjá BHSÍ. Það var um vetur svo að hann byrjaði í snjó. Það gekk mjög vel. En sama vor féll flóð í Tunguskógi. Þar þreyttum við Tumi okkar frumraun í allvöru útkalli. Tilviljun réði því að engir útkallshæfir hundar voru á svæðinu og vorum við því kölluð út. Var það mikil lífsreynsla.

Hann fékk C á sínu fyrsta námskeiði sem var sumarleitarnámskeið og var ég mjög lukkuleg með það. Það var haustið 1994. Um veturinn var byrjað af krafti að æfa í snjónum og var nóg af honum. Þann 15. janúar 1995 fórum við á æfingu. Svo mikill var snjórinn að við æfðum við gaflinn á íþróttahúsinu á Ísafirði. og áttum góðan æfingardag með alla hundana. Daginn eftir féll flóð á Súðavík.

Það var hrikalegt veður þann 16. janúar og hrikalegt í sjóinn. Við Tumi vissum ekki hvað við vorum að fara út í og svona lífsreynsla breytir bæði mönnum og málleysingjum til frambúðar. Ég varð alltaf vör við það eftir þessa lífsreynslu að Tuma var ekkert um að vera úti í veðri sem minnti á veðrið þessa daga. Mikil ísing mikill skafrenningur og ofsalegur vindur.
En svona lífsreynsla styrkir böndin milli manns og hunds og hefur Tumi alltaf verið meira en hundur fyrir mér síðan við upplifðum þetta saman. En í mars sama ár fórum við norður á Akureyri og tókum C gráðu í snóflóðaleit í Hlíðarfjalli. Haustið 1995 ákvað ég að flytja til Noregs og læra þjálfun blindrahunda. Auðvitað fór Tumi með. Við bjuggum í skóginum utan við Vestby og æfðum leit með Norske Redningshunder.

Það gekk ágætlega þrátt fyrir smá örðuleika með öll þessi tré sem að ég var í stökustu vandræðum með og átti það til að villast sjálf. Frægt er í Noregi þegar leitarhundurinn frá Íslandi bjargaði eiganda sínum sem var villtur 300 metra frá heimili sínu.

Ég flutti heim til Íslands október 1996 og dæmdist Tumi þá til vistar í Hrísey í 6 vikur. Sú dvöl var honum erfið og var hann lengi að jafna sig á henni. Við byrjuðum samt fljótlega að æfa aftur og haustið 1997 fórum við á námskeið í Reykjanesi og tókum eitt erfiðasta B próf sem þekktist í þá daga. Allt svæðið var kjarri vaxið frá fjalli og niður í fjöru. Ég spýtti næstum blóði en okkur tókst það!

Æft var af krafti og í mars 1998 fórum við norður í Þelamörk og tókum B. Eftir það kom smá hlé hjá okkur Tuma þar sem hann greindist með vanvirkan skjaldkirtil og tók alllangan tíma að greina það. Eftir áramót 2000 fórum við á fullt aftur og tókum A gráðu enn og aftur fyrir norðan.
Haustið 2001 slasaðist Tumi í leik og lamaðist í báðum afturfótum og hélt ég þá að öllu væri lokið hjá honum. En hann fékk fljótt mátt í vinstri fótinn en það gekk hægar með hægri.

Við tókum heilt ár í hvíld og ég þjálfaði hann eftir bestu getu. Þegar við byrjuðum að æfa aftur sá ég hvað hann átti erfitt með að hlaupa í þungum snjó og bröttu fjalllendi svo að ég ákvað að hann fengi að hætta sem leitarhundur og einungis vera minn félagi þau ár sem hann ætti ólifað. Tumi dó s.l. vor þá 13 ára gamall saddur lífdaga. Hann var góður félagi alla tíð og mun ég sakna hans alltaf.
Auður Björnsdóttir