Námskeið og aðalfundur Úlfljótsvatni

Helgina 4.-6. maí síðastliðinn var fyrsta sumarnámskeið sveitarinnar á þessu ári haldið á Úlfljótsvatni.

Mætt voru um 25 teymi sem skipt var niður á 3 svæði. Sú nýjung hefur verið tekin upp varðandi námskeiðin að ef um tveggja daga námskeið er að ræða, bætist við einn aukadagur fyrir þá sem vilja mæta fyrr og æfa og sami háttur er með þriggja daga námskeiðin.

Því var ágætis mæting strax á fimmtudagskvöldinu og hóf fólk svo að æfa á föstudagsmorgni en sumir létu sér nægja að mæta aðeins seinna.
Veður var með ágætum alla helgina og gengu æfingar vel fyrir sig.
Það var ekki mikið um próf á þessu fyrsta námskeiði sumars eins og venja er en þó var eitt teymi sem skellti sér í C próf og stóðst það með glans en það voru Eyþór og Prímó.

Aðalfundur sveitarinnar var svo haldinn á laugardagskvöldinu. Þar var dagskráin hefðbundin aðalfundarstörf, inntaka nýrra félaga og svo voru teknar fyrir breytingartillögur varðandi reglur sveitarinnar en þær voru þó nokkrar sem bárust.

Ný stjórn var kosin og er hún sú sama og síðasta starfsár eða:

Elín Bergsdóttir Formaður
Auður Yngvadóttir Varaformaður
Ragnheiður Hafsteinsdóttir Ritari
Nikulás Hall Gjaldkeri
Kristinn Guðjónsson Meðstjórnandi
Gunnar Gray Varamaður
Halldór Halldórsson Varamaður

Einnig var kosið í Fræðslunefnd og eru það Nikulás Hall og Snorri Þórisson sem taka sæti þar ásamt Ingimundi en hann er skipaður af stjórn.
6 nýir félagar voru teknir inn að þessu sinni og bjóðum við þá velkomna í sveitina.

Næsta námskeið verður haldið í Vaglaskógi dagana 20.-24. júní.