Sameiginleg æfing

Sunnudaginn 14. nóvember var haldin sameiginleg útkallsæfing Björgunarhundasveitar Íslands (BHSÍ) og Leitarhunda Slysavarnafélagsins
Landsbjargar.

Þetta var önnur sameiginleg æfing sveitanna á árinu og í þetta skipti var
það hann Helgi Kjartansson frá Leitarhundum sem setti æfinguna upp. Æfingin var haldin í Flókadal og var það Jóhann Pjetur Jónsson frá
BHSÍ sem útvegaði svæðið og figuranta, sem voru krakkar frá Hvítárbakka, og þökkum við þeim fyrir að liggja úti klukkutímum saman í roki og að hluta til snjókomu.

Þáttakendur æfingarinnar voru:

Elín Bergsdóttir með Skottu (BHSÍ)
Ingimundur Magnússon með Frosta (BHSÍ)
Susanne E. Götzinger með Sám (BHSÍ)
Kristín Sigmarsdóttir með Kút (Leitarhundar)
Ívar Björnsson með Tátu (Leitarhundar)
Haukur Ö. Sigurjónsson með Rökkvu (Leitarhundar)

Leitarsvæðinu var skipt upp milli manna og átti hvert teymi að leita sitt svæði. Samvinnan gekk mjög vel og fundust allir fígurantar nema einn en hann lá á stað þar sem ekkert teymi leitaði á. Svæðið var það stórt að
það tókst ekki að leita það allt á þessum tæplega 3 tímum sem teymin
fengu til að leita.

Leitarsvæðið var mjög krefjandi og skemmtilegt enda alls konar klettar, gil, klettasyllur og jafnvel smá skógur. En svæðið var hryggur milli Reykholtsdals og Flókadals. Veðrið var eins og það á að vera á svona æfingu, sterkur vindur og stundum snjókoma. Undir svona kringumstæðum geta hundar tekið lykt af týndu fólki í allt að 400 – 500 m fjarlægð og spara þar með leitarmanninum heilmörg spor.

Ákveðið var að halda fljótlega aðra svona sameiginlega æfingu fyrir Leitarhunda Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Björgunarhundasveit Íslands.