Sjö unglingar „týndir“ og „fundnir“ á Seljalandsdal

Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands (BHSÍ) stóð fyrir umfangsmikilli útkallsæfingu á Seljalandsdal í Skutulsfirði þann 14. ágúst síðastliðinn. Markmiðið með æfingunni var þjálfun þriggja vestfirskra útkallshunda og eigenda þeirra í víðavangsleit. Félagar úr Björgunarfélagi Ísafjarðar aðstoðuðu við æfinguna, m.a. sjö unglingar úr unglingadeild félagsins sem létu sig ekki muna um það að „týnast“ á fjöllum uppi og láta hundana finna sig.

Æfingunni var stjórnað úr björgunarmiðstöð Björgunarfélags Ísafjarðar í Guðmundarbúð og tókst aðgerðin í alla staði hið besta. Ungmennin fundust öll á innan við tveimur tímum. Leitað var á sex svæðum í fjalllendinu ofan við og í Seljalandsdal. Auk hundanna studdustu leitarmenn við GPS-staðsetningartæki og Tetra-fjarskipti, en hundarnir sáu um sjálft leitarstarfið undir stjórn eigenda sinna.

Leitarteymin þrjú sem tóku þátt í æfingunni skipa þau Auður Yngvadóttur með hundinn Skímu, Ólína Þorvarðardóttir með hundinn Skutul og Skúli Berg með hundinn Patton. Allir hafa hundarnir þreytt svokallað A-próf og eru þar með fullþjálfaðir sem leitar- og björgunarhundar á útkallslista Landsbjargar. Hundarnir þrír hafa allir sinnt leitarútköllum undanfarin tvö ár.

Hörður Sævar Harðarson skipulagði æfinguna fyrir leitarteymin þrjú. Hann er öllum hnútum kunnugur varðandi meðferð leitar- og björgunarhunda þar sem hann hefur sjálfur þjálfað og notað slíkan hund við leitarstörf.

Að sögn þremenninganna er mikið verk að þjálfa leitar- og björgunarhund, og þjálfuninni þarf að viðhalda eftir að öllum prófum er náð. Útkallsæfing eins og sú sem haldin var í gærkvöldi er mikilvægur liður í því að halda hundunum við. Þeir halda nú vestur á Gufuskála, þar sem BHSÍ verður með úttektarnámskeið um næstu helgi og er þess vænst að fimmtán hundar taki þátt í því.

Meðfylgjandi mynd er tekin af hópnum sem stóð að æfingunni í gærkvöldi og eins og sjá má eru ungmennin vel á sig komin eftir útiveruna á Seljalandsdal.