Sumarnámskeið Bitru

Síðasta sumarnámskeið sveitarinnar á þessu ári var haldið um síðustu helgi á Bitru.

Alls voru 25 teymi mætt til leiks og voru 4 svæði í gangi. Tvö af svæðunum voru eingöngu notuð sem prófsvæði þar sem 7 teymi þreyttu próf samkvæmt nýjum víðavangsleitarreglum Fagráðs SL um björgunarhunda. Samkvæmt þeim þurfa B og A hundateymi að taka tvö próf og standast þau bæði til að komast á útkallslista björgunarhunda hjá SL. Á hinum svæðunum voru svo unghundarnir okkar ásamt þeim sem voru að fara í C próf.

Dómarar á námskeiðinu voru leiðbeinendurnir Ingimundur og Maurice og A hundafólkið Elín, Gunnar, Hermann, Auður og Ragga. Samkvæmt nýju reglunum hafa þeir sem hafa verið með A hund einhvern tímann á síðustu þremur árum dómararéttindi. Það var því nóg að gera hjá sumum sem voru bæði að fara í próf og dæma en allt gekk þetta vel upp. Veðrið var með besta móti þó vindur hafi á stundum verið í minna lagi fyrir þá sem voru í prófum, en að sjálfsögðu leystu teymin það af stakri snilld. Á laugardagskvöldinu var heldur betur slegið upp veislu þar sem námskeiðsgestir fengu þriggja rétta dýrindis máltíð og samanstóð hún af svartfugli í forrétt, grilluðu hrossakjöti í aðalrétt og eplaböku í eftirrétt. Ekki ónýtt það og þökkum við Jóa, Hugrúnu, Rósu og Gunnari kærlega fyrir frábæran mat. Einnig viljum við þakka öllum þeim sem lágu úti í lengri tíma sem styttri og ábúendum á Bitru fyrir frábærar móttökur og gestrisni.

Alls þreyttu 10 teymi próf á námskeiðinu og urðu niðurstöður þessar:

Ingimundur og Frosti A-endurmat SL
Elín og Skotta A-endurmat SL
Ragga og Jökull A-próf SL
Bríet og Skutla B-próf SL
Gunnar og Krummi B próf SL
Halldór og Skuggi C-próf
Jóna og Tinni C-próf
Valur og Funi C-próf.