Sumarnámskeið Reykhólum

Þriðja sumarnámskeið sveitarinnar á þessu ári var haldið um síðustu helgi á Reykhólum.

18 teymum ásamt aðstoðarfólki var skipt niður á þrjú svæði í nágrenni Reykhóla og má þess geta að yngsti námskeiðsgesturinn var aðeins 5 mánaða og fór báða dagana upp á svæði og horfði á pabba sinn æfa. Framtíðar hundakona þarna á ferð. Eini leiðbeinandinn á námskeiðinu var Ingimundur en Elín og Hermann hlupu í skarðið á hinum svæðunum og stjórnuðu æfingum þar með miklum sóma. Að þessu sinni voru 5 teymi sem tóku próf og stóðust þau öll.

Þau voru:

Bríet og Skutla B gráða.
Björk og Krummi C gráða.
Harpa og Auðna C gráða.
Nikulás og Skessa C gráða.
Snorri og Kolur C gráða.

Framtíðar útkallsteymi þarna á ferð og óskum við þeim innilega til hamingju með árangurinn. Veðrið var með besta móti alla helgina, sól og blíða og viljum við þakka veðurguðunum fyrir það. Einnig viljum við þakka fólkinu á Gistiheimilinu Álftalandi kærlega fyrir góðar móttökur og frábæra aðstöðu. Fjórða og síðasta sumarnámskeið sveitarinnar verður svo haldið í september í Þórsmörk.