Þengill 1994 – 2006

Fallinn er frá góður félagi sveitarinnar, hann Þengill.

Þengill fæddist 7. september 1994 og  byrjaði hann í þjálfun hjá BHSÍ strax á hvolpaaldri ásamt eiganda sínum, Þóri Sigurhanssyni. Þengill var á útkallslista sveitarinnar í fjöldamörg ár, bæði í víðavangsleit og snjóflóðaleit, ásamt því að vera eini hundurinn á landinu sem hafði fengið einhverja þjálfun í vatnaleit. En síðasta útkallið sem hann fór í var einmitt leit á sjó þann 4. júlí síðastliðið ár. Saman voru hann og Þórir frábært teymi og var gaman að fylgjast með þessum rólega og yfirvegaða hundi sinna sínu starfi og það með miklum sóma.

Á 25 ára afmæli sveitarinnar í desember síðastliðinn var Þengill gerður að heiðursfélaga sveitarinnar og var hann fyrsti ferfætlingurinn til að verða þess heiðurs aðnjótandi.

Að morgni 25. maí síðastliðinn veiktist Þengill og um hádegi sama dag var tekin sú ákvörðun að leyfa honum að sofna svefninum langa.

Félagar sveitarinnar senda Þóri, Ester og öðrum fjölskyldumeðlimum, tvífættum og ferfættum, innilegar samúðarkveðjur.

Minning um góðan hund lifir.

Fyrir hönd BHSÍ Ragnheiður Hafsteinsdóttir