Útkall Þjórsárdal 20. júlí

Björgunarsveitir fundu um kl. 11 í morgun, mann sem leitað hafði verið að í Þjórsárdal síðan í gærkvöldi. Maðurinn sem er 82 ára varð viðskila við fjölskyldu sína sem hafði tjaldað skammt frá bænum Skriðufelli um kl. 23 í gærkvöldi og leitaði fjölskylda hans að honum fram á nótt. Lögregla kallaði út björgunarsveitir í Árnessýslu upp úr kl. 4 í nótt og hófu þær þegar leit og fljótlega bættust við björgunarhundar af höfuðborgarsvæðinu.

Um kl. 9 var boðað út fjölmennt lið björgunarsveita af höfuðborgarsvæðinu og þyrla var komin í viðbragðsstöðu þegar maðurinn fannst um klukkan 11. Hann var á göngu í alla nótt og fannst rétt norðan við Dímon og var við góða heilsu. Alls leituðu um 25-30 björgunarsveitarmenn og 5 björgunarhundar í nótt og í morgun og um 50 björgunarsveitarmenn til viðbótar voru á leið inn á svæðið, þegar leit lauk.