Útkallsæfing 17. maí 2008 við Bolungarvík

Félagar í Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands og Björgunarfélagi Ísafjarðar efndu sameiginlega til útkallsæfingar á Skálavíkurheiði og í Tungudal ofan Bolungavíkur í gær.

Sett var á svið leit að fjórum týndum einstaklingum – kærustupari sem hafði átt að koma fótgangandi frá Skálavík en borið af leið, og feðrum þeirra sem höfðu ákveðið að fara til móts við þau á sunnudagsmorgni. Samkvæmt sögunni átti parið að hafa náð símsambandi við foreldra sína á fjallshryggnum milli Skálavíkurheiðar og Tungudals svo ekki var „vitað“ hvorumegin skyldi leita þeirra.

Þrjú hundateymi tóku þátt í leitinni ásamt félögum úr unglingadeild Björgunarfélags Ísafjarðar sem gengu svæðið eða léku „týnda“ fólkið. Aðgerðastjórn var í höndum félaga úr báðum sveitum. Samtals tóku fimmtán manns þátt í aðgerðinni.

Útkallið barst kl. 13:09. Hálftíma síðar voru hundateymin komin á staðinn. Kl. 14:00 var búið að skipuleggja og skipta leitarsvæðum og hundarnir lagðir af stað. Fyrsti maðurinn fannst kl. 14.30 og sá síðasti laust fyrir kl. hálf fimm. Leitin í heild sinni tók því tvo og hálfan tíma sem þykir góður árangur. Leitarskilyrði voru góð, rigningarsúld en þokkalegur vindur. Hið síðarnefnda skiptir máli þegar hundar eru við leit því þeir taka lykt af fólki með veðri.

Æfingin tókst því í alla staði vel. Í Vestfjarðadeild BHSÍ á Ísafirði eru alls sjö hundateymi. Hundarnir sem notaðir voru að þessu sinni eru allt ungir hundar sem hafa verið í þjálfun undanfarin tvö ár. Þetta var þeirra fyrsta þrekraun af þessu tagi og stóðu þeir sig allir afar vel. Þau þrjú hundateymi sem tóku þátt í leitinni voru Skúli og Patton, Ingibjörg og Píla og Hörður og Skvísa.

Auður, Ólína og Sigrún Árna sáu um skipulagningu æfingarinnar ásamt Jóhanni, Hildi og fleirum góðum félögum Björgunarfélags Ísafjarðar.