Vatnaleitaræfing Skorradal

Um síðustu helgi var farið í Skorradal í þeim tilgangi að æfa vatnaleit. Nutum við aðstoðar kafara frá Björgunarfélagi Akraness, vaskra manna bátaflokks HSSK og Binna og Jóa úr OK.

Byrjað var um hádegi á laugardag en fyrr um morgunin voru sett upp víðavangsleitarsvæði fyrir C teymi sveitarinnar. Sama var gert á sunnudeginum. Veður var mjög gott til æfinga og alveg nægur vindur til að hundarnir næðu að staðsetja kafarana.

Kafarinn fór nokkra metra undir yfirborð vatnsins og þegar hundarnir markeruðu þá kom kafarinn upp og verðlaunaði hundana. Það má segja að þetta hafi allt gengið mjög vel, flestir hundar markeruðu, þá annað hvort með gelti eða vældu og klóruðu í bátinn.

Sumir fóru skrefinu lengra og stukku út í. Kannski ekki æskilegt en góð skemmtun fyrir þá sem fylgdust með. Sveitin hefur sett sér að gera þetta aftur í desember og oftar í framtíðinni, því nauðsynlegt er að hafa vatnaleitarhunda innan Landsbjargar. Fyrir hönd sveitarinnar vil ég þakka köfurunum, bátaflokknum, Jóa og Binna kærlega fyrir alla aðstoðina. Einnig þökkum við dömunum á Indriðastöðum fyrir frábæran mat.

Kveðja Ragga