Víðavangsæfingar hafnar

Nú eru víðavangsæfingar komnar í fullan gang eftir snjóflóðaæfingar vetrarins og flestir farnir að huga að markmiðum sumarsins í þjálfun og prófum. Að þjálfa upp leitarhund tekur gríðar mikinn tíma en eins og í svo mörgu öðru býr lengi að fyrstu gerð og sú vinna sem lögð er í leitarhund fyrstu tvö ár þjálfunar leggur grunninn að sterku leitarteymi til framtíðar.

Við stöndum fyrir fjórum þriggja daga úttektarnámskeiðum á hverju sumri, í maí, júní, ágúst og september þar sem félagar alls staðar að af landinu hittast, æfa hunda sína og þreyta próf. Fyrsta úttekt sumarsins verður haldin á og við Bifröst í Borgarfirði síðustu helgina í maí og hlökkum við mikið til að koma í Borgarfjörðinn enda ávallt tekið vel á móti okkur þar.

Við æfum alla sunnudaga kl 10.00 en æfingarstaðir eru afar fjölbreytilegir. Við auglýsum allar æfingar og æfingarstaði inni á facebook síðu okkar Æfingar og námskeið Björgunarhundasveitar Íslands svo endilega finnið hana á facebook til að fylgjast með. Við tökum alltaf vel á móti áhugasömu fólki og vinnusömum hundum.