Hér kemur sagan af ferðalaginu sem þrír áhugasamir björgunarsveitamenn skelltu sér í nú í endan nóvembermánaðar.
Þetta byrjaði allt saman á fimmtudegi – eða nóttu réttara sagt – þegar við hjónaleysin úr Hveragerði héldum áleiðis til Keflavíkur til að ná í þriðja björgunarmanninn og jú, fara í flug. Ferðinni var heitið til London og þaðan til Lake District á Norður Englandi. Nú, að loknu flugi fór fimmtudagurinn í að koma sér til miðborgar London, nánar tiltekið í grennd við Paddington. Það fór drjúgur tími í að keyra enda umferðin vægast sagt stórhættuleg og í ofanálag keyra þeir öfugu megin! En Steinar stóð sig eins og hetja og kom okkur á leiðarenda. Föstudagurinn fór í að keyra þvert í gegnum England og til Lake District eða Keswick þar sem Mick Guy þrautreyndur hundamaður beið eftir okkur. Það var ofboðslega vel tekið á móti okkur og fengum við að gista í heilu húsi útaf fyrir okkur! Okkur var boðið út að borða á veitingahús í bænum og fengum við menninguna beint í æð, sátum á krá þar sem allir voru velkomnir og sérstaklega var tekið fram að hundar væru velkomnir!
Á laugardeginum hófst svo námskeiðið. Ekki voru móttökurnar síðri hjá félögum í Sarda Lakes. Við fórum á svæði í gullfallegum dal þar sem ungir hundar voru öðru megin við veginn og próf voru þreytt hinum megin. Hundarnir voru virkilega góðir ungir sem aldnir og það var virkilega gaman að fylgjast með. Enda ferðamennirnir með eindæmum áhugasamir um hundaþjálfun. Þennan dag var mikið skrafað um hunda, útköll, björgunarsveitir og allt þar á milli. Daginn eftir var Dóri fenginn til þess að dæma próf og Jóhanna fengin til þess að aðstoða við að leiðbeina, Steinar fór í fjallgöngu og má með sanni segja að allir hafi haft virkilega gaman af. Seinna um kvöldið var að sjálfsögðu farið á næstu krá þar sem fólk fékk sér pintur og fór yfir námskeiðshelgina. Það þarf vart að taka fram að hundar voru velkomnir á þessa krá sem aðra og þótti okkur íslendingunum alveg ótrúlega vinalegt að horfa yfir salinn þar sem einn hundur lá fyrir framan arininn, tveir undir borði og einn labrador búinn að koma sér fyrir fyrir framan eldhúsdyrnar þar sem þjónarnir komu fram með veitingar, í veikri von um að eitthvað gæti dottið á gólfið af girnilegum matnum.
Sunnudagskvöldið bauð Mick Guy og kona hanns okkur í mat, litlu mátti þó muna að ekkert yrði af matnum þar sem Mick fékk útkall og á tímabili var borðað mjög hratt! En þess má geta að þetta var sjöunda útkallið á Lake District svæðinu bara yfir helgina! Við gátum þó borðað í rólegheitunum því afturköllun kom stuttu síðar. Eftir matinn fengum við að skoða aðstöðu Keswick Mountain Rescue Team og náðum við í restina af útkalli sem var í gangi rétt hinum megin í Lake District. Aðstaðan var með besta móti og eru þeir mjög vel útbúnir í alla staði.
Þá var ekki annað að gera en að kveðja þessa frábæru kollega okkar og halda heim á leið, uppfull af hugmyndum um áframhaldandi þjálfun og endurnærð eftir ferskt fjallaloftið í þessu fallega sveitahéraði.
Jóhanna Þorbjörg
Steinar Rafn og
Halldór Halldórsson