Starfið okkar

Það er óhætt að segja að starfið okkar stjórnist af árstíðunum. Á vorin og fram á haust æfum við hundana okkar í víðavangsleit en um leið og snjóalög leyfa færum við okkur yfir í vetrar- og snjóflóðaleit.

Víðavangsleit

Í víðavangsleitinni er líkt eftir því að einstaklingur liggi týndur á stað þar sem hundur getur numið lykt frá honum og þefað hann uppi. Við hittumst hvern sunnudag kl. 10 á fyrirfram ákveðnum stað og setjum upp fjölbreyttar æfingar sem hæfa getu og reynslu hvers teymis. Við klæðum okkur eftir veðri látum æfingar ekki falla niður nema veðrið sé með eindæmum vont. 

Staðirnir sem við hittumst á eru margbreytilegir til þess að hundarnir fái að spreyta sig í ólíkum aðstæðum, en einnig til þess að hundarnir venjist ekki stöðunum. Tilkynnt er um staðsetningu æfinga í Facebook hópnum æfingar og námskeið Björgunarhundasveitar Íslands. Þar sem flestir félagar okkar búa á höfuðborgarsvæðinu hittumst við í nágrenni þess.

Snjóflóðaleit

Þegar snjór hefur sest í skafla getum við farið að æfa snjóflóðaleit. Við þurfum að minnsta kosti tveggja metra djúpan snjó til þess að geta æft hundana í kröfuhörðum aðstæðum. Þar sem flestir meðlimir BHSÍ eru á suðvesturhorni landsins eru Bláfjöllin æfingasvæði flestra okkar. 

Eins og í víðavangsleitinni fara æfingar ávallt fram á sunnudögum kl. 10. Tilkynnt er um staðsetningu æfinga í Facebook hópnum æfingar og námskeið Björgunarhundasveitar Íslands.

Námskeið og úttektir

Hundateymi verða að hafa réttindi til að sinna útköllum. Á hverju ári þurfa hundateymi sem vilja ná inn á útkallslista að taka próf og þau teymi sem þegar eru á útkallslista að endurnýja réttindin. Er það gert á námskeiðum sem haldin eru nokkrum sinnum á ári. Eitt námskeið í snjóflóðaleit er haldið á hverju ári en fjögur námskeið í víðavangsleit. Námskeiðið í snjóflóðaleit stendur í fimm daga og er yfirleitt haldið í kringum þriðju helgina í mars. Námskeiðin í víðavangsleit eru haldin fjórum sinnum á ári – í maí, júní, ágúst og september – og eru þau þriggja daga löng.