Hlýðnireglur fyrir björgunarhunda

Reglur þjálfunar skiptast í þrjá flokka.

Flokkur C: Byrjendur
Flokkur B: Útkallshundar
Flokkur A: Útkallshundar

Viðurkennt teymi í A flokki skráist á útkallslista BHSÍ.

Viðurkennt teymi í B flokki skráist á útkallslista BHSÍ.

Hlýðnipróf skal tekið fyrir eða samhliða B prófi í víðangs eða snjóflóðaleit. Standast þarf hlýðnipróf til að teymi skráist á útkallslista. Teymi sem hefur verið með A hund og velur að fara beint í B próf skal standast hlýðnipróf til að fá viðurkennt B próf.

Í viðauka 1 má finna nánari útfærslur á æfingum og stigagjöf.

 

Æfing 1: Skapgerðarpróf (staðist / ekki staðist)
Viðbrögð hundsins gagnvart ókunnugum. Hundurinn hafður í ól. Aðstoðarmaður kemur eðlilega fram, framkvæmir síðan óvænt hljóð og hreyfingar. Framkoma hundsins skal vera eðlileg, ekki glefsa eða vera feiminn. Aðstoðarmaður gengur rólega að hundateymi, tekur við hundi, gengur í hvarf og til baka aftur.

Hundurinn þarf að standast skapgerðarpróf til að geta haldið áfram.

 

Æfing 2: Hælganga (10 stig)
Hundurinn á að vera í byrjunarstöðu, laus eða í hámark 2m taumi. Hundastjórnandi láti vita þegar hann er tilbúinn að byrja.

Dómari gefur leyfi til að byrja. Skipunarorð frá hundastjórnanda má gefa í byrjun og við stefnu/hraðabreytingar. Í æfingunni á hundurinn að fylgja hundastjórnandanum í slökum taumi/laus. Teymið er prófað í snúningum (hægri/vinstri/180°) og á mismunandi hraða.

Dómsreglur
Auka skipanir og merki þýða frádrátt. Öll frávik frá framanskráðu þýða frádrátt. Hundur togar í taum eða hleypur frá stjórnanda þýðir frádrátt.

 

Æfing 3: Sækja – skila (30 stig)
Hundurinn sé í byrjunarstöðu og laus. Stjórnandi má nota hlut sem hundurinn þekkir. Stjórnandi kasti eða gangi út með hlutinn uþb. 15 metra. Við merki frá dómara gefur hundastjórnandi hundinum skipun um að sækja hlutinn og skal hundurinn sækja hlutinn og skila til hundastjórnanda fljótt og vel.

Þessa æfingu skal endurtaka þrisvar sinnum. Hundinum leyfist að skila sitjandi eða standandi, fyrir framan eða við hlið hundastjórnanda, innan meters radíuss. Skilað í hendi í kyrrstöðu skilar hæstu einkunn.

Dómsreglur
Því hraðar og öruggar sem hluturinn er sóttur/skilað, því betra.

Hundur má sleppa hlut og taka hann strax upp aftur til að laga hann til í kjaftinum. Hundur sem eyðileggur hlutinn hlýtur ekki viðurkenningu í æfingunni. Öll frávik frá framanskráðu þýða frádrátt.

 

Æfing 4: Innkall á frjálsum hundi (40 stig)
Hundurinn sé í byrjunarstöðu. Að fengnu leyfi dómara gengur teymi af stað. Dómari segir til þegar kalla á hundinn inn. Við innkall verður fjarlægðin að vera minnst 15 metrar. Ef hundurinn fer ekki 15 metra frá stjórnanda getur hann gengið frá hundinum eða dómari kallað hundinn til sín. Í innkalli á hundurinn að bregðast fljótt og vel við, fara beint til stjórnanda án tafar og stjórnandi tekur hundinn í taum.

Dómsreglur
Kalli dómarinn á hundinn verður hann að gæta þess að áhrifin séu ekki það sterk að það hindri hundinn í að gegna innkalli eiganda fyrr en hann er búinn að athuga þann sem kallar. Í slíku tilfelli á merki um innkall að koma þegar hundurinn hefur rannsakað málið. Öll frávik frá framanskráðu þýða frádrátt.

 

Æfing 5: Kyrr á staðnum (30 stig)
Tími er 5 mínútur og hundastjórnandi sinnir sjúklingi eða öðru samstarfsverkefni minnst 15 metra frá hundinumn að hundinum sjáandi.

Einn eða fleiri hundar taki þátt í æfingunni. Að beiðni dómara er hundinum gefin skipun um að vera kyrr. Þegar dómarinn lætur vita, gengur hundastjórnandi í beinni línu að verkefni sínu. Með leyfi dómara gengur stjórnandi til hundsins og bíður eftir skipun frá dómara um að æfingunni sé lokið.

Dómsreglur
Leyfilegt er að hundur færi sig lengd sína. Það og annar órói þýða frádrátt.

 

Almennar reglur

Teymi þarf lágmark 80 stig til að standast hlýðnipróf.

Almennar reglur sem gilda fyrir allar æfingar.

  • Ef hundi er refsað fyrir, á meðan eða eftir æfingu varðar það brottvísun frá prófi. Ástæða brottvísunar skráist á eyðublað hjá dómara.
  • Hundurinn skal byrja hverja æfingu við hlið stjórnanda.
  • Hundurinn skal vera undir stjórn að og frá æfingasvæði (í taumi).

 

Standist teymi hlýðnipróf gildir það það sem eftir er þjálfunarinnar.

 

Innritun – úttekt – próf.

Hlýðnipróf er hægt að taka á æfingum sveitarinnar, eða námskeiðum, eitt sér eða samhliða B prófi.

Standist teymi hlýðnipróf gildir það fyrir áframhaldandi þjálfun og skráist viðkomandi teymi þá á útkallslista að undangengnu B prófi. Fall á hlýðniprófi frestar skráningu á útkallsskrá þar til hlýðniprófið er staðist.

Hundateymi sem fellur á hlýðniprófi getur hvenær sem er farið fram á að prófið verði endurtekið. Komi slík beiðni til stjórnar eða leiðbeinanda skal verða við henni við fyrsta tækifæri.

Tveir leiðbeinendur dæma hlýðnipróf. Þó er heimilt að einn leiðbeinandi ásamt A-hundamanni dæmi prófið.

 

Yfirfarið og breytt í samræmi við fund fræðslunefndar 14.6.2021
Ingimundur Magnússon