Lög BHSÍ

1. gr. Nafn sveitarinnar

Nafn sveitarinnar er Björgunarhundasveit Íslands, skammstafað BHSÍ. Heimili og varnarþing er í Reykjavík. Sveitin á aðild að Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

2. gr. Hlutverk

Hlutverk sveitarinnar er að starfa í þágu almannaheilla með þátttöku í björgun, leit og gæslu á ábyrgð stjórnvalda og í samvinnu við þau. Hlutverk sveitarinnar er einnig að vera samtök manna um land allt, er áhuga hafa á þjálfun og notkun hunda til leitar og björgunarstarfa. Tilgangi sínum hyggst sveitin ná með miðlun upplýsinga um þjálfun hunda og manna til leitar og björgunarstarfa og að standa fyrir námskeiðum og æfingum í þeim tilgangi.

3. gr. Einkenni

Merki sveitarinnar er grænn jafnarma kross með hundshaus í miðju. Stafirnir BHSÍ eru fyrir neðan krossinn. Grunnur merkisins er rauðgulur rétthyrningur með grænum ramma í kring.

4. gr. Skírteini

Skírteini eru gefin út til félaga sveitarinnar.

5. gr. Félagar

Félagar geta þeir einir orðið er uppfylla þessi skilyrði:

  • Eru fullra 18 ára
  • Hafa starfað með sveitinni í 12 mánuði
  • Hafa náð árangri í skyndihjálp og rötun skv. kröfum sem gerðar eru á hverjum tíma

Við inngöngu í sveitina skal hver félagi undirrita eiðstaf BHSÍ.

Stjórn sveitarinnar er heimilt að vísa sveitarmeðlimi úr sveitinni ef sá sami hefur gerst brotlegur við eiðstaf BHSÍ, en þó getur hann vísað máli sínu til almenns sveitarfundar og verður þá leynileg atkvæðagreiðsla látin ráða úrslitum ef sveitarmenn álita að svo þurfi.

Sækir utanfélagsmaður eftir því að starfa reglulega með sveitinni er hann, með samþykki stjórnar, skráður sem nýliði þangað til hann gerist félagi eða hættir að starfa reglulega.

Nafnaskrá yfir alla félaga og nýliða skal jafnan vera til hjá stjórn sveitarinnar.

Inntökubeiðnir og úrsagnir úr sveitinni skulu vera skriflegar og sendast stjórn sveitarinnar. Við brottför úr sveitinni getur félagi ekki gert tilkall til sjóða eða eigna sveitarinnar.

6. gr. Styrktarfélagi

Styrktarfélagar geta þeir orðið sem styrkja vilja sveitina fjárhagslega eða á annan hátt. Styrktarfélagar hafa ekki atkvæðisrétt en geta setið fundi.

7. gr. Félagsgjöld

Innheimt eru félagsgjöld. Upphæð ákveðst á aðalfundi. Greiði félagi ekki félagsgjöld í 2 ár, verður hann tekinn af félagsskrá og er skráður sem eldri félagi.

8. gr. Sveitarfundir, stjórnarfundir

Almenna sveitarfundi skal halda á námskeiðum og æfingahelgum eftir því sem við verður komið en eigi sjaldnar en ársfjórðungslega og oftar ef þurfa þykir.

Stjórnin heldur fundi að jafnaði einu sinni í mánuði eða eins oft og þurfa þykir. Formaður boðar stjórnarfundi með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara.

Á öllum fundum sveitarinnar gilda almenn fundasköp.

9. gr. Aðalfundur

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum sveitarinnar. Hann skal halda fyrir lok febrúar ár hvert, þó má fresta aðalfundi að tillögu stjórnar telji meirihluti sveitarfundar þess þörf. Aðalfundur skal boðaður bréflega eða með öruggum rafrænum hætti með minnst þriggja vikna fyrirvara.

Tillögur um lagabreytingar svo og framboð í embætti sveitarinnar þurfa að berast stjórninni tímalega.

Eigi síðar en viku fyrir aðalfund skal stjórn senda félagsmönnum í pósti eða með öruggum rafrænum hætti framkomnar tillögur um breytingar við lög sveitarinnar svo og lista yfir félagsmenn sem bjóða sig fram í embætti sveitarinnar.

Á aðalfundi er afhent skýrsla stjórnar og ársreikningar sveitarinnar. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Atkvæðisrétt hafa aðeins skuldlausir félagar en nýliðar, eldri félagar og styrktarfélagar geta sótt fundinn og hafa málfrelsi og tillögurétt.

Dagskrá aðalfundar er:

  • Formaður setur fundinn og stýrir kjöri fundarstjóra
  • Fundarstjóri tilnefnir fundarritara
  • Inntaka nýrra félaga
  • Skýrsla stjórnar um starf sveitarinnar síðastliðið starfsár
  • Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga
  • Ákvörðun félagsgjalda
  • Lagabreytingar
  • Kosning formanns, stjórnar, tveggja skoðunarmanna reikninga og fræðslunefndar
  • Önnur mál


10. gr. Stjórn

Stjórn skal skipuð fimm mönnum: formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnenda. Skulu þeir kosnir á aðalfundi ásamt tveim varamönnum. 

11. gr. Fræðslunefnd

Fræðslunefnd BHSÍ sé skipuð þremur aðilum. Einn sé skipaður af stjórn, hafi leiðbeinindaréttindi og sé þá jafnframt yfirleiðbeinandi. Yfirleiðbeinandi hefur formennsku í nefndinni en hinir tveir eru kosnir á aðalfundi. Hlutverk fræðslunefndar er að semja og viðhalda úttektarreglum sveitarinnar og bera ábyrgð á að þeim sé framfylgt. Nefnin mótar fræðslustefnu sveitarinnar, þmt reglur um leiðbeinendaréttindi og úttektir. 

12. gr. Skipulag 

Sveitinni má skipta í deildir. Reglugerð um deildarskiptingu skal samþykkja á aðalfundi. Stjórn er heimilt að skipa nefndir til sérstakra verkefna og skulu þær skila skýrslu um störf sín á aðalfundi. Félögum er skylt að láta stjórn sveitarinnar annast öll samskipti við opinbera aðila er tengjast starfi sveitarinnar.

13. gr. Fjármál

Sveitin hefur sjálfstæðan fjárhag. Reikningsár sveitarinnar er fyrsti September til þrítugasta og fyrsta Ágúst. Gjaldkeri fer með fjárreiður en skoðunarmenn reikninga kjörnir á aðalfundi endurskoða reikninga.

BHSÍ skal eiga varasjóð. Tilgangur sjóðsins er að mæta hugsanlegum samdrætti í tekjum, vera tryggingasjóður gegn hugsanlegum áföllum eða til að fjármagna sérstök verkefni. Til þess að nota megi fé úr varasjóð verður að boða til félagsfundar með löglegum fyrirvara og þurfa 2/3 hluti fundarmanna að samþykkja úttekt úr varasjóði. Reglugerð um varasjóð eða breytingar á henni skal lögð fyrir aðalfund.

14. gr. Lagabreytingar

Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi sveitarinnar. Öðlast lagabreytingarnar þegar gildi er a.m.k. tveir þriðju hlutar atkvæðisbærra fundarmanna greiða þeim atkvæði. Tillögum til lagabreytinga skal koma til stjórnar tímalega og skulu sendar út til félagsmanna í samræmi við 9.gr.

15. gr. Ráðstöfun eigna

Verði sveitin lögð niður skal stjórn skipa þrjá menn og Landsbjörg tilnefna tvo menn til eftirlits með eignum sveitarinnar þar til útséð er um að hliðstæð sveit verði stofnuð. Ef svo verður ekki lýtur nefndin lögum Landsbjargar.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi BHSÍ þann 27. febrúar 2022.