Afrakstur sumarsins hjá BHSÍ verður að teljast nokkuð góður því samtals tóku 80 teymi þátt í námskeiðum sumarsins og 21 teymi tók A, B, eða C próf.
Námskeiðin fóru fram víðsvegar á landinu í ár. Sumarvertíðin hófst í Þjórsárdalnum með námskeiði dagana 22. – 24. maí. Á námskeiðið kom Alexandra Grunow, kennari frá Þýskalandi og leiðbeindi hún þátttakendum í sporavinnu með hundum. Alexandra er virtur hundaþjálfari sem á og rekur K-9 Suchhundezentrum í München. Hún er með áralanga reynslu í sporavinnu og hefur m.a unnið við björgun, með lögreglu og fleiri viðbragðsaðilum.
Annað námskeið BHSÍ var haldið í Borgarfirðinum í júní og nutum við gestrisni Háskólans á Bifröst og Hótel Bifrastar. Námskeiðið fór fram í blíðskaparveðri og var íslenska sumarið upp á sitt besta.
Hólmavík tók á móti Björgunarhundasveitinni 13. – 16. ágúst og dvöldu þátttakendur í góðu yfirlæti á tjaldstæðinu á Hólmavík. Þátttakan var heldur betur góð því 22 teymi mættu á námskeiðið og þjálfuðu hunda sína um helgina. Eitt nýtt teymi bættist inn á útkallslista sveitarinnar og ekki verður aftur snúið fyrir annað teymi sem tók C-próf en það er fyrsta gráðan af þremur sem hundateymin taka. Alls tóku 6 teymi endurmat og stóðust það með prýði. Námskeiðið var frábær skemmtun og gaman að sjá ný andlit ásamt gömlum og góðum félögum.
Nítján teymi tóku þátt í síðasta sumarnámskeiðinu sem fór fram í nágrenni Bláfjalla 25. – 27. september. Þetta námskeið fer í sögubækurnar vegna hvassviðris og úrkomu. Vindurinn var lengi vel yfir 20 metrum á sekúndu á laugardeginum og rigningin bleytti hressilega í þátttakendum. Hér sannaðist hið fornkveðna að ekki gerir vont veður heldur er bara til slæmur útbúnaður. Þátttakendur létu veðrið ekki stöðva sig og var æft og prófað eins og ekkert hefði í skorist.