Fimm daga snjóflóðaleitarúttekt Björgunarhundasveitarinnar lauk í dag. Að þessu sinni héldum við úttektina í Bláfjöllum í vægast sagt afar rysjóttu veðri. Að venju buðum við upp á fyrirlestra og fræðslu í lok dags og fræddumst við meðal annars um mótun og þjálfun leitarhunda, mikilvægi þeirra sem fela sig fyrir hundana okkar og dýralæknirinn okkar kenndi okkur fyrstu hjálp fyrir hunda.
Á mánudagskvöld héldum við sveitarfund og þangað kom Tómasz Þór Veruson og sagði okkur frá ótrúlegri lífsreynslu sinni er hann grófst í snjó þegar snjóflóðið féll á Súðavík í janúar 1995. Meira en 24 klukkustundum eftir að hann grófst fann snjóflóðaleitarhundur hann grafinn á margra metra dýpi. Frásögn Tómaszar var afar sterk og hvetur okkur til að gera enn betur í þjálfun snjóflóðaleitarhunda enda aldrei að vita hvenær okkar verður þörf.
Niðurstöður úttektarinnar eru eins og best verður á kosið, einn A-endurmatshundur, þrír A hundar, þrír B hundar og sjö C hundar. Við erum sérstaklega ánægð með alla nýju C hundana okkar enda er endurnýjun leitarhundanna okkur afar mikilvæg.