40 ára afmæli Björgunarhundasveitar Íslands

Dagurinn er 8. desember 1980. Í Nóatúni 21 í Reykjavík er haldinn fundur sem boðað er til af Landssambandi hjálparsveita skáta. Erindið er að stofna nýja björgunarsveit innan sambandsins sem hafi það að markmiði að þjálfa hunda og menn til leitar að fólki í snjóflóðum og rústum. Á fundinn eru mættir um 20 manns sem hlusta þar á setningarræðu Tryggva Páls Friðrikssonar, heitins sem þá var formaður LHS, erindi um starf sporhundadeildar HSH og erindi um leitarhunda sem Páll Eiríksson heldur. Lagt er fram uppkast að lögum sveitarinnar og henni kosin stjórn. Sveitin hlýtur nafnið Björgunarhundasveit Íslands.

Í dag 40 árum síðar fögnum við, félagar í sveitinni þessum degi með þakklæti í huga til þeirra sem höfðu þá framsýni til að bera að fara í þessa vegferð. Þeir sem kynnst hafa því að starfa innan björgunarsveita landsins vita hversu gefandi og ánægjulegt það er. Að gera það með hund sem félaga og vin er í senn krefjandi og óendanlega gefandi. Það er ekki að ástæðulausu að margir af reyndustu og traustustu félögum sveitarinnar hafa starfað þar um áratuga skeið og skapað þar andrúmsloft samheldni og fjölskylduanda. Ótal börn hafa alist upp beint og óbeint á æfingum og námskeiðum sveitarinnar þar sem þau hafa fengið að kynnast samvinnu við okkar ferfættu félaga og um leið náttúru landsins og sögu.

 

Starfsemi sveitarinnar hefur á þessum 40 árum tekið hægfara breytingum. Árið 1994 hófst formleg þjálfun hundanna til leitar á auðri jörð, víðavangsleit. Sá þáttur hefur síðan stöðugt vaxið að umfangi og gerir það að verkum að þjálfun langflestra hunda er nú samfelld allt árið. Þá hefur skipulega verið unnið að því að breyta sveitinni úr eiginlegri björgunarsveit yfir í þjálfunar- og úttektarsveit fyrir aðrar sveitir landsins þar sem sveitin leggur höfuðáherslu á þjálfun í notkun hunda til leitar, en félagarnir eru þá jafnframt félagar í björgunarsveit í sinni heimabyggð og fara í útköll með viðkomandi sveit. Þetta hefur gert starfið markvissara og gert það að verkum að í dag er til staðar mikil þekking á þjálfun hunda innan sveitarinnar. Einnig eigum við mjög fær teymi sem hafa bæði góða undirstöðu sem björgunarmenn og kunna að nýta hunda til leitar.

Undanfarin ár höfum við lagt aukna áherslu á að kynna starf sveitarinnar með ýmsu móti og hefur mikil vinna verið lögð í lifandi og skemmtilega facebook síðu auk þess sem ákveðið var að nota afmælisárið til að gera breytingar á merki sveitarinnar og uppfæra heimasíðu sveitarinnar. Í tilefni afmælisins hvetjum við alla til að finna okkur á facebook og skoða hvað við höfum haft fyrir stafni að undanförnu. Einnig er vert að skoða nýju heimasíðuna okkar www.bhsi.is sem er full af fróðleik um starf okkar og skartar nýju kynningarmyndbandi sem við erum mjög stolt af.

Við munum á næstu vikum birta glefsur úr starfi sveitarinnar og myndir en formleg afmælishátíð bíður um stund þar til Covid draugurinn hefur verið kveðinn niður. Við óskum öllum okkar félögum, gömlum og nýjum til hamingju með daginn og þökkum velunnurum og samstarfssveitum fyrir ánægjulegt samstarf.