Fjórir félagar úr Björgunarhundasveit Íslands voru fengnir til þess að standa vaktina á Seyðisfirði þar sem aurskriður hafa fallið. Auðurnar hrifu með sér og eyðilögðu 14 hús. Eftir rúmlega fjögurra sólarhringa úthald kom hópurinn heim þriðjudaginn 22. desember.
Fjögur fullþjálfuð A hundateymi voru fengin til að fara austur í algerri óvissu um heimferðartíma en lagt var upp úr því að hópurinn yrði sjálfbær um uppihald og gistingu í 2 sólarhringa hið minnsta. Teymin komu frá Hjálparsveit skáta Garðabæ, Hjálparsveit skáta í Reykjavík, Björgunarsveitinni Björg Eyrarbakka og Flugbjörgunarsveitin Hellu. Unnu þau saman sem ein heild líkt og allar okkar æfingar miða við.
Hópurinn sinnti eftirliti á fjallshlíðum ofan lokaðra svæða í hvert skipti sem starfsfólk orkufyrirtækja, verkfræðistofa, Landhelgisgæslu og fleiri þurftu að fara inn á hættusvæði, ásamt öðrum verkefnum. Sem betur fer kom ekki til þess að þörf væri á sérhæfingu hundanna okkar þann tíma sem við vorum á staðnum. Félagar okkar í Leitarhundum Slysavarnafélagsins Landsbjargar eiga vel þjálfað teymi á Reyðarfirði sem stóð vaktina áður en við komum og er til taks nú eftir að við erum farin.
Okkur langar að þakka öllum þeim sem aðstoðuðu okkar fólk í aðgerðinni með því að bjóða gistingu og mat á meðan á dvölinni stóð, Bragðavellir Cottages, Við Lónið guesthouse, Hof 1 Fellum, Askur Pizzeria og Rauði krossinn.
Hugur okkar er með Seyðfirðingum, félögum okkar í Björgunarsveitinni Ísólfi Seyðisfirði og öllum þeim sem hafa sýnt ótrúlegan styrk og samheldni í þessum hamförum.