Um helgina fengum við til landsins góðan gest, Knut Skår formann systursamtaka okkar í Noregi, Norske Redningshunder. Hann kynnti okkur fyrir áhugaverðri þjálfunaraðferð til að fá hundana til að einbeita sér að fínleit í snjóflóðum og leita frekar að andardrætti en hlutum sem gætu hafa grafist í flóði.
Við stingum röri undir snjóinn og blásum í það til að koma andardrætti undir snjóinn og þarf hundurinn að grafa þar sem lyktin kemur upp. Til að æfa hefðbunda snjóflóðaleit þurfum við u.þ.b. tveggja metra djúpan snjó en með blástursaðferðinni getum við byrjað mun fyrr á tímabilinu og æft hvar sem er því við þurfum ekki nema 30 sm djúpan snjó. Þessi aðferð mun aldrei koma í staðin fyrir hefðbundnar æfingar en er sterk viðbót við vopnabúrið okkar.
Knut fór yfir fræðilega hluta blástursaðferðarinnar í fyrirlestri fyrir félaga BHSÍ. Daginn eftir sýndi hann okkur hvernig við berum okkur að við blásturinn og hvernig við komum hundinum upp á lagið með að leita í lyktarsvæðinu. Einnig sýndi hann fram á að mikilvægt er að verðlauna hundinn á hárréttu augnabliki.