Leikskólaheimsókn

Í vikunni sem leið fóru þau Jóhanna Þorbjörg og Morris hundurinn hennar í heimsókn i leikskólann á Laugalandi. Þar fengu þau að hitta þrjá elstu hópana og kynna starf björgunarhundsins fyrir þeim. Krakkarnir fengu líka að læra um reglurnar sem fylgja því að hitta ókunnuga hunda. En reglurnar eru þær að maður á alltaf að spyrja eigandann hvort maður megi klappa hundinum og ef hann leyfir það þá á maður að leyfa hundinum að lykta af hendinni fyrst og klappa svo.

Þetta voru krakkarnir alveg með á hreinu eftir heimsóknina og ætla alltaf að fylgja þessum reglum. Jóhanna tók með sér sjúkrakassann sem hún tekur alltaf með sér í útköll því alveg eins og með okkur getur hundurinn slasað sig í útköllum og því er mikilvægt að geta búið um sárið. Einnig var rætt mikilvægi þess að eiga sjúkrakassa heimafyrir og samkvæmt nokkrum börnum þá þurfa mamma og pabbi að bæta þar úr 😉 Krakkarnir fengu að skoða sjúkrakassann og fylgdust spennt með þegar Jóhanna bjó um þykjustusár á fætinum.

En það sem var mest spennandi var að Morris kann að fara eftir fyrirmælum, alveg eins og börnin eru að læra í ART þjálfuninni. En það allra flottasta var að Morris kann að gelta bæði með inniröddinni og útiröddinni! og þurfti hann að endurtaka það nokkrum sinnum 😉

Björgunarhundasveitin þakkar fyrir sig