Ágústnámskeiðið 2012

Þriðja sumarnámskeið BHSÍ var haldið á Gufuskálum helgina 17. til 20. ágúst. 23 teymi voru á námskeiðinu og leiðbeinendur voru þeir Ingimundur og Snorri.

Tvö teymi tóku C-próf, en það voru þau Sandra og Atlas og Ásgeir og Tinni. Eitt teymi tók B-próf, en það voru þeir Viðar og Tinni. Til hamingju með það. Kokkur á námskeiðinu var hún Hugrún frá Hæl, snilldarkokkur sem dekraði við okkur með kræsingum og bakkelsi. Kærar þakkir fyrir okkur Hugrún.

Þetta námskeið var með nýju sniði, en hóparnir skiptust á svæðum og var alltaf einn hópur í hlýðni á hverjum tíma. Ingimundur sá um skipulagninguna á þessu námskeiði og var námskeiðsstjóri og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Heppnaðist þetta mjög vel og var skemmtileg tilbreyting.

Við fengum frábæra gesti frá SARDA Lakes í Englandi, þau Keith og Carol Warwick. Keith hefur komið áður til Íslands og er þrautreyndur hundaþjálfari. Hefur hann m.a. þjálfað björgunarhunda og verið með hunda á útkallslista í mörg ár, þjálfað hjálparhunda fyrir fatlaða, og einnig hefur hann þjálfað hunda í Suður-Kóreu til björgunarstarfa og sem varðhunda. Reka þau nú hundaskóla í Bretlandi. Sáu þau um hlýðniþjálfunina og héldu fróðlega fyrirlestra. Í enda námskeiðsins tóku nær allir hlýðnipróf og var útkoman mjög góð. Greinilegt að bæði hundar og menn hafa mjög gott af þessum hlýðniæfingum.

Hr. Björn sá um næturæfingu á sunnudagskvöldið og máttu allir taka þátt. Var hún sett upp eins og um útkall væri að ræða, þar sem menn fengu leitarsvæðin sín reituð í gps tækin. Tókst æfingin mjög vel, allir fundust eftir stutta leit og voru öll teymi komin í hús um hálf eitt um nóttina. Þetta var mjög góð æfing og góður undirbúningur fyrir þá sem eru á leið á útkallslista. Frábært framtak hjá Birni og vel skipulagt.

Þetta var í heildina mjög gott námskeið, á frábærum stað sem Gufuskálar eru, veðrið var með besta móti og komu menn sólbrunnir og berjabláir heim. Næsta námskeið verður haldið í september á Gufuskálum.