Víðavangsæfingar eru í fullum gangi og verður fyrsta víðavangsúttekt sumarsins haldin á og við Bifröst í Borgarfirði helgina 24. til 26. maí. Á þessu svæði eru mörg krefjandi og skemmtileg leitarsvæði fyrir hunda á öllum stigum þjálfunar og er alltaf tilhlökkun hjá okkur að komast á úttekt í Borgarfirðinum. Helgina 17. til 18. ágúst verður svo haldin úttekt á Suðurlandinu og helgina 21. til 22. september verður svo síðasta úttekt sumarsins haldin við höfuðborgarsvæðið.
Víðavangsútköll eru lang stærstur hluti þeirra útkalla sem við sinnum með hundunum okkar og að sama skapi tímafrekasta æfingarformið. Eftir að hafa farið í gegn um C, B og A próf til að teljast fullþjálfað teymi þurfum við að fara í endurmat á hverju ári til að sýna fram á að við höfum haldið þjálfuninni við og eigum erindi á útkallsskrá. Endurmatssvæði er allt að ferkílómeter að stærð og höfum við þrjá tíma til að finna þá sem faldir eru í svæðinu, sem geta verið 1 til 4 einstaklingar en við vitum fyrirfram ekki hversu margir eru faldir. Prófsvæðin eru mis erfið yfirferðar og prófin tekin í misjöfnum veðuraðstæðum svo það getur tekið allt frá klukkutíma upp í þrjá tíma að ljúka leit á svæðinu.
Það er alltaf gaman að fylgjast með og aðstoða við þjálfun nýrra hunda, fylgja þeim eftir og sjá svo teymin uppskera fyrir erfiðið með því að ná sínum prófum. Við erum með hunda á öllum stigum þjálfunar, allt frá ungum hundum sem eru að stíga sín fyrstu spor í leit til reyndra leitarhunda sem hafa farið í gegn um mörg endurmöt. Hver hundur fær einstaklingsmiðaða þjálfun og eru próf sett upp eftir því hvaða verkefni prófdómarar vilja sjá teymin leysa á hverju stigi þjálfunar.
Við hvetjum áhugasama hundaeigendur til að finna síðuna Æfingar og námskeið Björgunarhundasveitar Íslands á facebook og líka við hana en þar koma fram upplýsingar um allar æfingar okkar. Við erum alltaf tilbúin til að taka á móti áhugasömum eigendum og vinnusömum hundum sem vilja kynna sér okkar mikilvæga starf.