Útkallsæfing

Björgunarhundasveit Íslands hélt á dögunum útkallsæfingu á Hæl í Borgarfirði. Útkallsæfingarnar hjá Björgunarhundasveitinni eru haldnar með þeim hætti að þær eru keyrðar líkt og um alvöru útkall væri að ræða. Þetta eru frábærar æfingar fyrir teymin og það er alltaf jafn gaman að koma að Hæl. Björgunarhundasveitin vill koma á framfæri kæru þakklæti til þeirra sem lágu úti og þóttust vera týndir (fígúrantar) en þeir voru:

Þór Þorsteinsson (Ok)
Arnar Þórsson
Egill Þórsson (Ok)
Jóhann
Bjarki Pétursson
Elísabet Pétursdóttir
Margrét Pétursdóttir

Hérna kemur svo frásögn af æfingunni :

Mættir á Hæl, ég og Bjössi. Setið yfir kortum og blöðum um skipulag og þáttöku sem Bjössi er búinn að gera þrátt fyrir afbókanir. En kvöldið líður og enn fleiri tilkynna að þeir komist ekki. Við Bjössi orðnir frekar þreyttir en Jói huggar okkur með því að það komi sennilega fimm figurantar úr sveitinni. Hættum að skipuleggja og förum að sofa. Það verður bara að koma í ljós hverjir mæta í fyrramálið. Brunum í Geirshlíð til Pitta og þar bíða okkar uppbúin rúm og fullur ísskápur af morgunmat. Þetta fólk veit ekki hverju það er að missa af.

Vakna kl 6:30. Bjössi örugglega löngu vaknaður. Situr við tölvuna . Ekki fleiri búnir að afboða sig. Jú eitt sms. Jæja, brunum yfir á Hæl og það líður ekki langur tími þar til eldhúsið fyllist af ungu hressu fólki úr nágrenninu sem er til í hvað sem er. Viðar og Nick ásamt Lukasi sem ætlar að vera figurant, mæta með pokana og við getum drifið okkur af stað. Allt lítur betur út þrátt fyrir kolsvarta myrkur og ég geng glaður af stað upp á hálsinn með figurantahópinn til að koma þeim fyrir í fimm leitarsvæðum sem við ætlum að nota á hálsinum upp af Geirshlíð. Upp úr tíu er svo hægt að byrja að leita og þökk sé þessu unga fólki þá getur okkar fólk einbeitt sér að leitinni.

Á ótrúlega skömmum tíma er búið að finna alla og meira að segja kind sem átti að vera löngu komin á hús. Allir koma glaðir í bragði til baka á Hæl þar sem Jói og Harpa töfra fram dýrindis hádegismat að hætti hússins, lambasteik með meðlæti. Aftur haldið af stað með figurantana, þeim hefur meira að segja fjölgað um tvo. Heimasæturnar úr Geirshlíð slást í hópinn. Núna förum við niður á ásinn, niður frá Hæl. Allir fá annað svæði til að leita og enn gengur vel að klára svæðin. Skessa finnur að vísu dauðan hest sem hún gerir víst heiðarlega tilraun til að éta, en klárar svo svæðið með glæsibrag og við Bjössi gleymum að gefa þingmanninum okkar færi á að fara fyrr úr svæðinu, Skutull náttúrulega löngu búinn að finna figurantinn og Ólína búin að leita lengi áfram autt svæðið. Dálítið þungt í minni enda á hún að vera mætt í boð hjá forsetanum eftir tæpa tvo tíma. Fyrirgefðu Ólína.

Klukkan rúmlega fimm eru allir komnir til baka og aftur er slegið til veislu að hætti hússins. Þetta er búinn að vera frábær dagur þökk sé Hörpu og Jóa sem enn á ný sanna það að þau eru höfðingjar heim að sækja og öllum figuröntunum úr sveitinni og Lukasi sem fórnuðu deginum til að við gætum bætt hundana okkar og Pitta í Geirshlíð fyrir frábæra gestrisni. Allir fara ánægðir heim. Viddi segir að vísu þegar hann gengur út ú eldhúsinu á Hæl að verða sex. „Ég verð sennilega drepinn þegar ég kem heim, ég er með gesti í mat“. Hvernig er hægt annað en finnast gaman í svona hóp. Takk aftur Harpa og Jói og skilið þakklæti til allra sem aðstoðuðu okkur

Kv Ingimundur