Vetrarnámskeið á Hólmavík

Þessa dagana eru félagar okkar í Björgunarhundasveitinni á okkar árlega vetrarnámskeiði. Námskeiðið stendur alla vikuna og er æft stíft, en á þessu námskeiði eru öll próf sett upp fyrir þetta árið og þreytt af teymum.

Hundarnir eru á öllum aldri og munu teymi þurfa að halda vel á spilunum til að standast próf en þau geta verið mjög erfið. Það sem hundunum er kennt er að hlaupa yfir svæði og lykta af snjónum og þegar hundurinn finnur lykt af einstaklingi á hundurinn að grafa eða grafa og gelta til að láta vita að hann sé búinn að finna. Þegar hundurinn er svo búinn að grafa nóg einn og sér eða með aðstoð skóflumanns kemst hann ofaní holuna til hins „týnda“ og fær verðlaun sem oftast eru leikföng eða „djúsí“ nammi líkt og blóðmör, lyfrarpylsa, harðfiskur eða annað góðgæti.

 

Það er okkur sönn ánægja að kynna verndara BHSÍ en það er engin önnur en forsetafrúin okkar Dorrit Moussaieff og hundurinn þeirra hjóna hann Sámur. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og Dorrit Moussaieff heiðruðu sveitina með nærveru sinni á vetrarnámskeiðinu sem núna stendur yfir og var Sámi kynnt fyrstu skrefin í að leita í snjó. Sámur stóð sig mjög vel og var fljótur að finna „mömmu“ sína

Um kvöldið var svo haldinn hátíðarkvöldverður þar sem Dorrit tók formlega við hlutverki verndara BHSÍ og Sámur fékk gullmerki Björgunarhundasveitarinnar en það merki bera þeir hundar sem hafa staðist öll próf til þess að mega fara og sinna útköllum. Hann ber það nú um hálsinn okkur og honum til heiðurs.

Við þökkum þeim enn og aftur kærlega fyrir komuna og kunnum við frú Dorrit og Sámi bestu þakkir fyrir að taka að sér að vera verndarar Björgunarhundasveitar Íslands.