Síðastliðin fimmtudag lauk árlegu vetrarnámskeiði Björgunarhundasveitar Íslands. Auk hefðbundinna æfinga voru tekin þó nokkur próf með góðum árangri. Fimm tóku endurmat, tveir luku A-prófi, fjögur teymi luku B-prófi og þrjú teymi tóku C-próf.
Vetrarnámskeiðin eru yfirleitt vinna frá morgni til kvölds þar sem æft er á daginn og kvöldin eru notaðar í fræðslu, fundi og útkallsæfingar. Þrátt fyrir að hundar og menn séu oft lúnir að loknu námskeiði er þetta hin besta skemmtun og allir fara glaðir og sáttir heim eftir afrakstur vikunar. Sveitin var með bækistöð á Hólmavík en þar sem snjór var að mestu horfinn af láglendi voru æfingar haldnar á Steingrímsfjarðarheiði.
Á laugardagskvöldið hlýddu þátttakendur á fróðlegt erindi hjá Þóri Sigurhanssyni um ýmislegt sem hundafólk þarf að hafa í huga þegar kemur að útköllum. Per Olav Gundersen gestaleiðbeinandi frá Noregi hélt námskeið á sunnudagkvöldið þar sem hann fór yfir nokkur raunhæf dæmi um snjóflóðaútköll með virkri þátttöku nemenda. Mánudagskvöldið var haldin útkallsæfing þar sem lögð var áhersla á innanbæjarleit. Þetta var nýstárleg æfing sem heppnaðist afar vel.
Við viljum þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg til að gera þetta námskeið mögulegt. Kvenfélagið Glæður á Hólmavík sá um alla matreiðslu á námskeiðinu og var gott að koma í mat eftir kaldan dag á heiðinni. Sérstakar þakkir fær Per Olav Gundersen, gestaleiðbeinandi frá Noregi, fyrir skemmtilegar æfingar og nýjungar sem hann kynnti fyrir okkur.
A endurmat tóku
Guðrún Katrín Jóhannsdóttir með Líf
Jónas Þrastarson með Keano
Nikulás Hall með Skessu
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir með Skutul
Skúli Berg með Patton
A próf tóku
Ásgeir Eggertsson með Tinna
Sandra Sjöfn Helgadóttir með Atlas
B próf tóku
Guðný Eiríksdóttir með Perlu
Ingimundur Magnússon með Hespu
Þóra J. Jónasdóttir með Syrpu
Þröstur Reynisson með Lappa
C próf tóku
Hulda Lilja Guðmundsdóttir með Dimmu
Ingibjörg Benediktsdóttir með Ösku
Þórir Sigurhansson með Tind