Björgunarmaðurinn
Sá sem ákveður að koma með hundinn sinn í björgunarsveit skuldbindur sig til þess að vinna við sjálfboðastörf í félagsstarfi sem krefst útiveru í nánast hvaða veðri sem er. Stjórnandi hundsins þarf að geta unnið undir miklu álagi, jafnt andlegu sem líkamlegu. Hann þarf einnig að geta unnið í hópi fólks sem stefnir að sama markmiði. Umgengni um hunda í hópnum má ekki flækjast fyrir honum og hann þarf að vera tilbúinn til að verja tíma sínum til að taka þátt í þjálfun annarra hunda. Þar að auki þarf hver hundaeigandi sem vill taka þátt í starfi björgunarsveitar að gera sér grein fyrir því að sjálfboðastarfið krefst tíma, úthalds og skipulags.
Til þess að takast á við starfið þarf tilvonandi björgunarmaður að taka þátt í nýliðaþjálfun í björgunarsveit og ljúka ákveðnum námskeiðum. Þetta tekur yfirleitt um eitt og hálft ár og er því tilvalið að byrja á því um leið og þjálfun hunds hefst. Til að komast á útkallslista með leitarhund þarf hundaeigandinn að hafa lokið námskeiðum Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar til björgunarmanns 1. Dæmi um námskeið sem eru hluti af björgunarmanni 1:
- Ferðamennska & rötun
- Fyrsta hjálp 1
- Fjallamennska 1
- Fjarskipti 1
- Leitartækni
- Snjóflóð 1
Nánari upplýsingar um starf nýliða og námskeið veita Björgunarskóli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og björgunarsveitir sem sjá um nýliðaþjálfun.
<< Þjálfun hundanna – Fyrri síða
Næsta síða – Aðstoðarfólk >>