Sporaleit

Úr reglum sem voru unnar af fræðslunefnd Björgunarhundasveitar Íslands í ágúst 1999
Auður Björnsdóttir, Þorvaldur A. Steinsson, Þórir Sigurhansson.

Spor

  1. Almennar upplýsingar.
    1. Standist gengi C próf, getur það reynt við B próf á sama námskeiði ef hundurinn er 18 mánaða eða eldri.
    2. Standist gengi A próf, telst það tilbúið til að sinna útköllum í sporaleit á vegum BHSÍ.
    3. Gengi sem staðist hefur A próf er skráð á útkallslista BHSÍ í eitt ár.
    4. Mæti A gengi ekki í endurmat að ári liðnu, fellur A gráðan sjálfkrafa úr gildi án nokkurra undantekninga.
    5. Til að öðlast rétt til að reyna við A próf, þarf viðkomandi hundastjórnandi að vera fullgildur félagi í BHSÍ, hafa lokið námskeiði í skyndihjálp og rötun hjá aðilum sem BHSÍ viðurkennir.

 

Spor A flokkur

  • Aldur slóðar: 3 klst.
  • Lengd slóðar: 1,5 km.
  • Hlutir í slóð: 3 + endahlutur.
  • Leitartími: 1 klst.


Hundurinn þarf að vera minnsta 24 mánaða.

Upphaf slóðar skal liggja frá ákveðnum upphafsstað t.d, bíl, bakpoka, tjaldi eða hlut sem staðgengill skilur eftir sig. Hundurinn á að vera fær um að lykta af viðkomandi hlut og taka upp slóðina út frá upphafsstað. Svæðið í kringum upphafspunkt skal vera traðkað af minnst fimm manneskjum svo það líkist sem allra mest raunverulegum aðstæðum. Ýmsar hindranir geta verið í slóðinni t.d, girðing, lækur eða umferðargata.

Í þeim tilfellum þar sem slóð liggur yfir á eða læk eða aðra þá hindrum sem að einhverju leyti slítur í sundur slóðina, eiga hundastjórnandi og hundur að vera færir um að taka upp slóðina þar sem hún hefst á ný. Slóðin á að vera krossuð á minnst þremur stöðum og skiptir engu máli hversu gömul kross-sporin eru. Beygjur og vinklar skulu vera í slóðinni og skal það vera ákvörðun leiðbeinanda (dómara) hversu margar þær eru og einnig hvernig þær eru settar upp. Hafa skal í huga að hvernig sem vinklar og beygjur eru settar upp á gengið að geta leyst þær. Einnig skal prófa hundinn í að lesa úr spori, í hvaða átt staðgengillinn gekk. Það er gert með því að staðgengillinn gengur ca 200 metra slóð en í miðri slóð leggur hann frá sér hlut. Hundastjórnanda er bent á hlutinn og á að geta sagt til um það, í hvora áttina staðgengillinn gekk. Hundurinn á að vera fær um að taka upp slóðina í rétta átt.

Til þess að ná A gráðu þarf hundurinn að finna minnst tvo hluti + endhlut og fá ”staðist” í öllum þáttum prófsins.

Spor B flokkur

  • Aldur slóðar: 1 klst.
  • Lengd slóðar: 1 km.
  • Hlutir í slóð: 4 + endahlutur.
  • Leitartími: 1 klst.
  • Hundurinn þarf að vera minnsta 18 mánaða.

Upphaf slóðar skal liggja frá ákveðnum upphafsstað t.d, bíl, bakpoka, tjaldi eða hlut sem staðgengill skilur eftir sig. Hundurinn á að vera fær um að lykta af viðkomandi hlut og taka upp slóðina út frá upphafsstað. 3 vinklar skulu vera á slóðinni. Slóðin á að vera krossuð á einum stað og skal kross-slóðin liggja þvert á aðalslóðina. Kross-slóðin skal ekki vera eldri en 30mín. Gengið á að vera fært um að rekja spor þó svo að utanaðkomandi truflun sé til staðar td, gangandi fólk, bílaumferð og jafnvel aðrir hundar.

Til þess að fá ”staðist” þarf hundurinn að finna minnst 3 hluti + endahlut. Einnig skal prófa hundinn í að gera greinmun á hvað sé fram og hvað sé aftur í sporinu. Það er gert með því að staðgengillinn gengur ca 200 metra slóð en í miðri slóð leggur hann frá sér hlut. Hundastjórnanda er bent á hlutinn og á að geta sagt til um það, í hvora áttina staðgengillinn gekk. Gengið þarf að standast fram og aftur prófið.

Spor C flokkur

  • Aldur slóðar: 30 mín..
  • Lengd slóðar: 500 metrar
  • Hlutir í slóð: 3 + endahlutur.
  • Leitartími: 30 mín.
  • Hundurinn þarf að vera minnsta 12 mánaða.

Upphaf slóðar skal liggja frá ákveðnum upphafsstað t.d, bíl, bakpoka, tjaldi eða hlut sem staðgengill skilur eftir sig. Hundurinn á að vera fær um að lykta af viðkomandi hlut og taka upp slóðina út frá upphafsstað. Til þess að fá “staðist” þarf hundurinn að finna minnst tvo hluti + endahlut.