Þjálfun leitar- og björgunarhunda
Frá upphafi þjálfunar þar til hundateymið er komið á útkallslista geta liðið a.m.k. tvö til þrjú ár. Á því tímabili er æft einu sinni til tvisvar í viku. Best er að byrja með einföldum æfingum þegar hundurinn er aðeins nokkurra mánaða gamall en þess eru mörg dæmi að eldri hundar hafi náð góðum árangri. Þegar teymið hefur staðist C, B og að lokum A próf tekur við tímabil þar sem eigandinn þarf að viðhalda þjálfun hundsins.
Þjálfunin á sér stað með jákvæðum stuðningi við hegðun hundsins. Það þýðir að geri hundurinn það sem af honum er ætlast er hann verðlaunaður með því að leika við hann eða gefa honum nammibita. Leik- og matarhvöt hundsins er notuð til þess að þjálfa hundinn og láta hann gefa til kynna hvar týndi einstaklingurinn er. Afar mikilvægt er að hundaeigandinn sinni umhverfisþjálfun frá ungum aldri hundsins og kenni hundinum almennar hlýðnireglur. Allir leitarhundar þurfa að taka hlýðnipróf með eiganda sínum.
Víðavangsleit
Leitarmaðurinn þarf að vera viðbúinn því að leita í alls kyns landslagi. Ef til vill þarf að klífa fjöll, ganga yfir hraun eða leita víðáttumikla móa í leit að þeim týnda. Við þjálfun í víðafangsleit er þess gætt að hundurinn nái að þefa uppi hinn týnda með hjálp vindsins sem flytur lyktina. Á meðan á þjálfuninni stendur er kennd tækni við að nýta vindinn og vindáttina til þess að leita megi svæði með skjótum og árangursríkum hætti.
Í fyrstu leitar hundurinn aðeins lítil svæði en við aukna getu hundsins eru svæðin stækkuð. Í prófum eiga lengra komnir hundar að geta fundið nokkra einstaklinga á um ferkílómetra stóru svæði. Andstætt sporaleit þurfa hundarnir okkar ekki að þefa af klæðnaði hins týnda áður en leitin hefst. Hundurinn sýnir eiganda sínum hvar hinn týndi er með því að gelta eða taka bitkubb, svokallað bringsel, í kjaftinn og koma með hann til eigandans. Að því loknu sýnir hundurinn eiganda sínum hvar hinn týndi er.
Snjóflóðaleit
Margt er líkt með þjálfun hunda í snjóflóðaleit og víðavangsleit. Fyrst er hundurinn látinn hlaupa til fólks sem felur sig í snjóholu. Í fyrstu kemst hundurinn án hindrunar inn í holuna, en smám saman er opið þrengt og því loks lokað. Hundurinn sýnir eiganda sínum að hann hafi fundið týndan einstakling með því að krafsa og grafa í snjóinn af ákafa. Fullnuma hundur þarf að geta fundið mann grafinn í fönn á um 1,5 m. undir yfirborðinu. Við þjálfun í snjóflóðaleit er einnig notast við leik og mat til þess að umbuna og styrkja jákvæða hegðun hundsins.
Snjóflóðanámskeið Björgunarhundasveitar Íslands
Eftirfarandi er lýsing á hefðbundnu vetrarnámskeiði Björgunarhundasveitar Íslands en hafið í huga að einstaka þættir geta breyst milli námskeiða.
Snjóflóðanámskeið er yfirleitt á dagskrá sveitarinnar í þriðju viku mars en það getur breyst vegna ytri aðstæðna, ss lögbundinna fría, gistimöguleika, snjóalaga ofl. Námskeiðið hefst alltaf á laugardegi og algengt er að þátttakendur mæti á föstudagskvöldi, einkum ef um langan veg er að fara. Ef teymi mæta á föstudegi er nauðsynlegt að láta námskeiðsstjóra vita tímanlega til að hægt sé að tryggja gistingu þessa aukanótt.
Námskeiðin eru yfirleitt haldin á svæðum þar sem þörf er á breyttum bílum og þarf hvert teymi að tryggja að þau hafi aðgang að slíkum bílum fyrir námskeiðið. Ef það reynist erfitt er yfirleitt hægt að taka íslensku leiðina og “redda því” svo ekki láta bílleysi stoppa þig frá því að taka þátt. Samband þarf að hafa við námskeiðsstjóra til að hægt sé að setja bíllaust teymi í hóp þar sem pláss er fyrir auka hund og mann í breyttum bíl.
Námskeið eru sett á laugardagsmorgni og yfirleitt er stefnt að því að fara upp á vinnusvæði um kl 9.00 eftir að námskeiðsstjóri hefur sett námskeiðið formlega. Fyrir námskeið er ykkur skipt í hópa með leiðbeinendum. Því skipulagi er yfirleitt haldið en þú gætir verið beðin/n um að skipta um hóp ef þannig stendur á. Dagskrá er gefin út fyrir námskeið þar sem hópar, próf og herbergjaskipan er yfirleitt gefin upp.
Hundar eru yfirleitt ekki leyfðir inni á gististöðum á Íslandi og því gista þeir í bílunum allar næturnar sem þeir eru á námskeiðinu. Einstaka undanþágur hafa verið gefnar fyrir mjög unga hvolpa og gamla hunda en alls ekki er hægt að reiða sig á að slíkt fáist.
Búrvanir hundar eru ekki eingöngu “sniðug hugmynd” heldur nauðsyn til að forðast streitu og þegar horft er til framtíðar eru útkallshundarnir okkar oft fluttir í búrum langan veg í útköllum. Til eru góðar leiðbeiningar um aðbúnað hunda í bíl að vetri til, sem hægt er að fá aðgang að.
Vinsamlegast hafið í huga að á þessu námskeiði er skýr krafa um að allir taki þátt á einn eða annan hátt. Ekki er í boði að hanga inni í bíl nema allur hópurinn ákveði það, svosem á matmálstíma. Unnið er úti í öllum veðrum svo að nauðsynlegt er að koma vel útbúin, með viðeigandi föt fyrir allar aðstæður, og gott staðgott nesti.
Hin heilaga þrenning – skófla, snjóflóðastöng og snjóflóðaýlir er skylda og allir eiga að hafa grunnþekkingu á hvernig nota skal stöng og ýli og grunnþekkingu í snjóflóðafræðum (námskeiðið Snjóflóð 1 hjá Björgunarskóla Landsbjargar).
Vegna þess hversu líkamlega erfitt er að vinna í snjó í marga daga samfleytt bjóðum við upp á góða gistiaðstöðu og alltaf kvöldmat (stundum einnig morgunmat). Þátttakendur sjá sjálfir um nesti (og stundum morgunmat) og fóður fyrir hundana.
Fyrsti dagurinn fer alltaf að mestu í að grafa holur og undirbúa æfinga og prófsvæði og búast má við að leiðbeinendur ákveði á þeim tíma sem námskeiðið fer fram að grafa fleiri holur og þá er það gert með aðstoð allra í hópnum. Yfirleitt eru æfingar af skornum skammti fyrsta daginn en við reynum alltaf okkar besta til að ná amk einu rennsli á hvern hund fyrsta daginn.
Næstu dagar einkennast að greftri, æfingum og prófum og læra nýliðar hratt hvernig þetta virkar allt saman. Við skiptumst á að láta grafa okkur niður í holur fyrir æfingar og próf. Í holurnar tökum við með okkur einangrunardýnu, svefnpoka og bivac poka (og jafnvel nesti) svo að ekki væsir um okkur í holuverunni. Verið forvitin, spyrjið spurninga og reynið að tala við leiðbeinendur og reynd teymi.
Vetrarvertíðin okkar er stutt og mikilvægt að æfa sem mest, læra hratt og gera hlutina eins vel og best verður á kosið. Lífslíkur einstaklinga sem lenda í snjóflóðum eru oftast afar stuttar og það er okkar krafa að teymin okkar geri sér grein fyrir alvarleika málsins, séu vel þjálfuð og tilbúin til að vinna slík verkefni.
Þetta eru oft langir dagar þó svo að við höfum síðastliðin ár reynt að stytta þá eins og hægt er. Við reynum yfirleitt að fara af vinnusvæðum milli 16.00 og 17.00 í eftirmiðdaginn en það getur breyst vegna matartíma, prófa, veðurs ofl.
Leiðbeinendur funda í lok dags um hvernig dagurinn fór, frammistöðu teyma, próf sem þreytt voru þann dag og hvað er á dagskrá daginn eftir. Einnig halda leiðbeinendur hvers hóps fund með hópnum í lok dags (oft uppi á vinnusvæði) þar sem farið er yfir frammistöðu hvers teymis þann daginn, hver þátttakandi fær að tjá sig um daginn og farið er yfir hvernig halda skal áfram með hvert teymi daginn eftir.
Eftir kvöldmat eru oft fyrirlestrar og fundir. Oft er misjafnt hversu langur hver dagur er og ekki hægt að segja með vissu hvenær dagskrá hvers dags klárast en við reynum að vera ekki lengur að en til 22.00.
Námskeiði er slitið fimm dögum eftir setningu. Teymi sem stóðust próf fá viðurkenningu frá BHSÍ, sem er viðurkenningarskjal með nafni teymis og prófgráðu sem staðist var. Eftir námskeið er gengið frá, gistiaðstaða þrifin eftir tilvikum og hvert teymi heldur heim á leið.

<< Hvaða hunda er best að þjálfa? – Fyrri síða
Næsta síða – Björgunarmaðurinn >>