Úttektarreglur fyrir víðavangsleit

Úttektarreglur fyrir víðavangsleit

1. Inngangur 

Þessar reglur skilgreina þær kröfur sem Björgunarhundasveit Íslands gerir til hunda og björgunarmanna sem teymi á útkallslista í víðavangsleit.

2. Úttektir og endurmat

Fyrsti áfangi teymis er úttekt í C flokki og er hún skilyrði til þess að teymi geti hafið þjálfun til B úttektar. Teymi sem stenst úttekt í B flokki skráist á útkallslista í eitt ár og reynir að því loknu við úttekt í A flokki. Teymi sem stenst úttekt í A flokki skráist ná útkallslista í eitt ár og þarf að fara í endurmat ár hvert.

Listi yfir teymi og niðurstöður prófa skulu geymdar hjá fræðslunefnd. Tilkynna skal útkallslistann í viðavangsleit hverju sinni til Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

3. Almennar kröfur

Hundur skal hafa staðist hlýðnipróf samkvæmt gildandi reglum. Hundur skal vera undir stjórn björgunarmanns að og frá leitarsvæði. Til þess að taka þátt í útkalli skal björgunarmaður hafa staðist kröfur skv. reglugerð BHSÍ um þjálfun björgunarmanna.

Ef hundur er beittur ofbeldi að mati dómara varðar það brottvísun úr úttekt.

 

Ef talinn er vafi á heilsu hunds og frá 10 ára aldri skal framvísa vottorði frá dýralækni um að hundur hafi heilsu til að taka þátt í björgunarstarfi.

Fræðslunefnd innritar teymi í úttekt þegar hún telur að það hafi fengið nægilega þjálfun til að standast úttekt. Teymi sem er í endurmati í annað sinn eða síðar er leyfilegt að vera með annan hund á námskeiði.

4. Dómarar

Úttekt í A og B flokki dæmist af tveimur dómurum, leiðbeinanda og A hundamanni sem lokið hefur minnst einu endurmati. Úttekt í C flokki dæmist af leiðbeinanda.

Dómari/ leiðbeinandi þarf að hafa verið með hund í A flokki, tekið minnst eitt endurmat og verið virkur í starfi sveitarinnar. Fræðslunefnd metur hæfni dómara frá öðrum sveitum.

Dómarar velja leitarsvæði og ákveða leitartíma í úttektum. Svæði skulu vera hæfilega stór miðað við landslag, veðurskilyrði og leitartíma. Dómarar ákveða fjölda týndra og staðsetningu þeirra á svæði.

Dómarar skrá niðurstöður úr úttektum á þar til gerð matsblöð og koma sér saman um niðurstöðu.

Geti dómarar ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu sendist álit hvors fyrir sig til fræðslunefndar sem ákveður endanlega niðurstöðu. Sitji viðkomandi dómari eða björgunarmaður einnig í fræðslunefnd þarf stjórn sveitar að skipa varamann til að fjalla um málið.

5. Úttekt í C flokki

Úttektir í C flokki fara fram á námskeiðum eða æfingum samþykktum af fræðslunefnd.

Lágmarksaldur hunds er 9 mánuðir.

Viðmiðunarsvæði í úttekt í C flokki ákveðist af dómara. Fjöldi týnda er tveir og leitartími um 15 mínútur.  Megin áhersla í C flokki er að hundurinn gefi skýrt og öruggt merki án nokkurrar hvatningar frá björgunarmanni eða þeim týnda. Heimilt er að verðlauna hundinn fyrir rétta hegðun.

Þegar hundurinn finnur týnda manneskju skal hann sækja björgunarmanninn með því að hlaupa til hans og gefa merki. Hundurinn má gefa merki með því að gelta eða koma með ‘bringsel’ í kjafti.

Þá skal hundurinn vísa björgunarmanninum beint á þann týnda.

Ein leit nægir í úttekt í C flokki.

6. Úttekt í B flokki

Til viðmiðunar þarf teymi að hafa öðlast reynslu í leitaræfingum í um eitt ár eftir að hafa lokið úttekt í C flokki. Lágmarksaldur hunds er 18 mánuðir.

Úttekt fer fram á námskeiðum, tekur tvo daga og skal hvert teymi að jafnaði leita tvö svæði og standast kröfur í bæði skiptin. Ef teymi stenst ekki kröfur í fyrstu leit geta dómarar ákveðið að fella niður seinni leit.

Dómarar skýra út leitarsvæði og skal björgunarmaður gera grein fyrir hvernig hann hyggst leita og þarf að geta rökstutt áætlun sína og breytingar sem kunna að verða út frá áætluninni.

Viðmiðunarsvæði í úttekt í B flokki er allt að 2/3 ferkílómetri með allt að þremur týndum.

Leitartími er u.þ.b. 2 klst. Upplýsingar um fjölda týndra liggja fyrir í upphafi leitar.

Teymið skal með kerfisbundnum hætti leita allt svæðið að teknu tilliti til landslags og veðurskilyrða. Teymið skal finna alla þá týndu á svæðinu. Björgunarmaðurinn tilkynnir fund til dómara með talstöð.

Teymið skal vera fært um að vinna jafnt að nóttu sem degi og nota skal ljós og viðeigandi rötunartæki ef þurfa þykir.

Teymið skal vera fært um að vinna á svæði þar sem aðrir leitarflokkar eru að störfum með hvers konar tækjum og útbúnaði, eða önnur teymi að leita nálæg svæði, án þess að það trufli einbeitingu.

Björgunarmaður skal vera leiðandi í leitinni og sýna að hann hafi skilning til að nýta getu hundsins og skilja viðbrögð hans.

7. Úttekt í A flokki

Til þess að innritast í úttekt í A flokki skal teymi vera með gilda úttekt í B flokki og hafa öðlast víðtæka reynslu í leitaræfingum í um eitt ár eftir að hafa staðist úttekt í B flokki.

Kröfur í úttekt í A flokki eru þær sömu og í B flokki að viðbættum eftirfarandi atriðum.

Viðmiðunarsvæði í úttekt í A flokki er allt að einn ferkílómetri með allt að fjórum týndum.

Leitartími er u.þ.b. 3 klst.

Björgunarmaður í A flokki skal vera hæfur til að skipuleggja og stjórna leit á vettvangi með fleiri hundateymum og öðrum leitarflokkum.

Teymi sem ekki mætir eða fellur í úttekt í A flokki er tekið af útkallslista og þarf að reyna aftur við úttekt í B flokki þegar fræðslunefnd telur teymið tilbúið. Dómurum er þó heimilt að leggja til að teymið haldi B gráðu en fari í A úttekt við fyrsta tækifæri. Björgunarmaður sem hefur staðist A kröfur í víðavangsleit má reyna beint við B kröfur í sömu grein. Hundurinn sé þó minnst 18 mánaða.

8. Endurmat

Kröfur í endurmati eru þær sömu og í úttekt til A flokks en dómarar geta ákveðið að láta eina leit nægja. Endurmat í A flokki  geta tveir A hundamenn dæmt sem lokið hafa minnst einu endurmati. Til þess að innritast í endurmat skal teymi vera með gilda úttekt í A flokki. Teymi sem mætir ekki eða fellur í endurmati er tekið af útkallslista og þarf að reyna næst við úttekt í A flokki. Dómurum er þó heimilt að leggja til að teymið sé áfram á útkallslista en fari aftur í endurmat við fyrsta tækifæri.

 

Samþykkt af fræðslunefnd BHSÍ, 06.12.2023.

Helgi Kjartansson, Ingimundur Magnússon og Snorri Þórisson