Félagar í Björgunarhundasveit Íslands tóku þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur í síðastliðinni viku. Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag beindist leitin að vegum og slóðum í nágrenni Hafnarfjarðar en um helgina var leitarsvæðið víkkað verulega út. Þetta er ein umfangsmesta leit sem nokkru sinni hefur farið fram á landinu.
Samtals tóku 11 víðavangs- og snjóflóðahundar ásamt sporhundi þátt í leitinni þá sjö daga sem hún varaði. Hundateymi frá BHSÍ komu m.a. frá Norðurlandi, Suðurlandi og Vestfjörðum. Birna fannst síðdegis á sunnudeginum. Viljum við votta aðstandendum Birnu okkar dýpstu samúð vegna andláts hennar.