Það er með sorg en mikilli virðingu í hjarta að við tilkynnum það að frá okkur er fallinn félagi hann Frosti frá Flekkudal. Frosti starfaði með björgunarhundasveitinni öll árin sín og yfirvegaðri og öflugri hund er vart hægt að finna. Það eru ófáir kílómetrarnir sem þeir félagar hafa gengið á æfingum og útköllum í gegnum tíðina en alltaf voru þeir farnir af gleði og elju. Ingimundur eigandi og samstarfsfélagi hans sendi okkur nokkrar línur um hann og gefum við honum orðið.
Frosti frá Flekkudal
1999-2014
Við Frosti ákváðum á föstudaginn að nú þyrftu að skilja leiðir í bili. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í lífshlaup hans eða samveru okkar þessi 15 ár. Aðeins þetta. Hann kenndi mér svo mikið á þessum 15 árum, miklu meira en ég gat nokkurn tíma kennt honum. Hann kenndi mér virðingu fyrir dýrum, hvernig þau eru yfirleitt svo miklu betri en við mannfólkið. Hann kenndi mér hvað vinátta og traust eru mikils virði. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.
Ingimundur