Æfing við Skíðaskálavatn

Æfðum í gærkveldi uppi við Skíðaskálavatn. Þegar við byrjuðum æfinguna sá maður ekki handa sinna skil vegna þoku en þegar líða tók á var orðið heiðskírt og virkilega fallegt veður.

Ég byrjaði æfinguna á undan hinum og tók svo tæplega klukkustundar göngu uppi á fjalli þar sem ég vissi að engin væri, þá var Öddi búinn að setja út tvo fígúranta og lét mig vita að þeir væru komnir í svæði nokkuð fyrir neðan mig svo ég leitaði niður dalinn og fann fyrsta fígúrantinn þegar við Skutla vorum búnar að vera góðan klukkutíma að leita. Hún markeraði vel og vísaði mér svo á hinn týnda. Þegar þangað kom fékk hún náttúrulega skemmtilegan boltaleik hjá fígúrantinum honum Magna Eftir að boltaleiknum lauk lögðum við af stað til að finna næsta fígúrant, eftir ca. tveggja mínútna göngu rann Skutla á lyktina af hinum fígúrantinum, en þá lenti hún í smá vandræðum því hann var hinum megin við Skíðaskálavatnið, hún gerði það eina rökrétta í byrjun og hljóp eftir lyktinni sem lá þvert yfir vatnið og beinustu leið út í vatnið, þegar hún var búin að synda góðan tíma ákvað hún að þetta væri ekki rétta leiðin, snéri við og kom upp úr vatninu nánast þar sem hún fór ofan í og þaut af stað hringinn í kringum vatnið og beint til fígúrantsins…. og hver segir að hundar hugsi ekki 🙂 Skilaði allri leitinni vel og það var sérstaklega gaman að fylgjast með henni vinna úr þessari lykt sem lá þvert yfir vatnið. Þetta er eitt af þessum skiptum þar sem maður skilur ekki hvers vegna myndavélin var í bílnum en ekki bakpokanum.

Goði og Ingþór mættu líka galvaskir á svæðið. Goði er fullur af fjöri og virkilega vel sáttur við húsbónda sinn hann Ingþór og gengur vel hjá þeim
félögum. Við settum út fígúrant fyrir Goða og sendum svo falskan út og
Goði rauk beint í áttina sem sá falski var sendur í. Goði fór hratt og vel yfir og vann nokkuð lengi áður en hann fann svo fígúrantinn. Goði geltir orðið hjá fígúrantinum en einstaka sinnum þarf að minna hann á, hann fer svo og geltir hjá Ingþóri og eftir það beint í vísun. Flottir saman Ingþór og Goði.

Smá orða skýringar:
Fígúrant……… er hinn týndi
Falskur………. er þegar fígúrant er látinn fela sig og hundurinn hefur ekki fengið að fylgjast með hvert hann fór, síðan er annar fígúrant látinn hlaupa aðeins út meðan hundurinn sér til, hundurinn er svo settur bakvið t.d. bíl meðan seinni fígúrantinn kemur tilbaka. Hundinum er síðan stillt upp á saman stað og hann sá seinni fígúrantinn hlaupa í burtu frá og leggur af stað í leitina mjög áhugasamur en þarf svo að hafa aðeins fyrir leitinni til að finna upphaflega fígúrantinn. 

Bríet