Samæfing Patreksfirðinga og Ísfirðinga

Patreksfirðingar og Ísfirðingar æfðu saman í … já slyddu … regni … roki … og næstum hagléli og varla nema 2-3 stiga hita uppi í Seljalandsdal á laugadaginn!! Eftir að Auður „náfrænka“ Pollýönnu hafði haldið fyrirlestur um að þetta væri alls ekki vont veður og við hin ættum bara að hætta að væla var farið að æfa … því auðvitað vissum við að Auður veit sínu viti (það var nú samt betra veður í janúar og febrúar). Eftir að við byrjuðum að æfa þá virtist veðrið lagast heilmikið … allavega hlýnaði okkur vel, reyndar var svo mikil og blaut rigning á svæðinu að að skipti varla máli hvort fígúrantarnir lögðust á á grasið eða bara beint í smá læki sem runnu hér og þar um svæðið. Á tímabili held ég að Hörður hafi óskað þess að geta hrist sig eins og hundur því hann var í orðsins fyllstu merkingu hundvotur.

Litlu villidýrin frá Kaðalstöðum voru alveg frábær. Mikill áhugi á leitinni og einbeitingin alveg ótrúleg. Þessir hundar eiga eftir að verða bara flottir þegar fram í sækir. Skíma Auðar, Skvísa Harðar og Patton Skúla eru tæplega fjögurra mánaða og strax farin að sýna réttu taktana. Vissulega björgunarhundar framtíðarinnar. Tinni og Skutla stóðu sig líka mjög vel. Tinni markeraði vel og vísunin var góð … þegar hann fékk svo leikinn á dró hann Smára næstum út um allt svæðið og á tímabili mátti ekki á milli sjá … hvor var að leika við hvern!! Skutla skilaði sínu vel og ákvað svo að hlaupa 1000 sinnum upp og niður með lítilli mjög vatnsmikilli á. Hún var einstaklega einbeitt við þessa iðju og er væntanlega þarna enn að hlaupa upp og niður. Spurning um að biðja Auði að sækja hana svona seinni partinn á morgun eða allavega fara og fóðra hana … neeeee hún hlýtur að fá afganga úr brúðkaupinu sem var þarna rétt hjá í Skíðaskála. Brúðkaupsgestirnir voru reyndar kátir með okkur …. allavega fengum við fínt áhorf og töldu Smári og Auður að við værum bara frítt skemmtiatriði fyrir liðið … ég held reyndar að gestirnir hafi vorkennt okkur að vera úti í rigningarslabbhaglélinu … eða allavega verið fegnir að vera ekki úti sjálfir.

En að öllu gamni slepptu … þá var þetta mjög góð æfing í góðra vina hóp. Það voru kátir félagar þ.e. Auður, Sigrún, Skúli, Hörður, Jóna, Magni, Smári, Bríet og allir ferfætlingarnir þeirra sem héldu heima á leið um fjögurleytið á laugardaginn!!

Takk fyrir daginn

kveðja Bríet og kó

P.s. svona bara til að segja ykkur það þá hrindi svo Auður í mig á sunnudeginum og þá var rúmlega 15 stiga hiti hjá henni !!