Vestfirskir björgunarhundar

Velkominn á heimasíðu Vestfirskra björgunarhunda.

Okkur datt í hug að það væri nú sniðugt fyrir okkur vestfirsku BHSÍ-félagana að vera með heimasíðu þar sem við getum komið á framfæri því sem við erum að gera.

Hér ætlum við að vera með nýjustu fréttir af hundunum okkar og gengi þeirra. Hér mun verða upplýst um allar æfingar og gengi teymanna á æfingum. Hér munum við setja inn myndir af hinum ýmsu atburðum sem tengjast hundunum okkar og æfingum með þeim. Hér verður sem sagt pláss fyrir allt í lífi hundanna okkar sem okkur finnst fróðlegt, merkilegt eða bara skemmtilegt.

Hver sá sem tekur það verkefni að sér að þjálfa björgunarhund þarf að gera það að vel ígrunduðu máli. Til að ná árangri með hundinum er „bara“ eitt sem þarf að gera … og það er að æfa og æfa og æfa svo enn meira. Við hér fyrir vestan æfum tvisvar í viku allt árið um hring þ.e. einu sinni í miðri viku og svo lengri æfingar um helgar og einnig förum á námskeiðhelgar hingað og þangað um landið þar sem við hittum fyrir leiðbeinendur og á þeim helgum þurfum við að sýna okkur og sanna ef við ætlum að taka einhverjar gráður. Við æfum bæði leit í snjóflóði og leit á víðavangi. Þegar svo hundurinn er kominn með þær gráður sem þarf til að komast á útkallslista þá tekur við alvara lífsins með öllum kostum og göllum. Teymið, þ.e. hundurinn og þjálfari hans þurfa að vera tilbúin í erfið verkefni allan sólarhringinn, allan ársins hring og í hvaða veðri sem er. Björgunar- og leitarhundar hafa á undanförum árum fengið mörg verkefni sem erfiðara hefði verið að leysa án þeirra.

Hinir Vestfirsku björgunarhundar búa bæði á norður- og suðursvæði Vestfjarða.

Á Ísafirði eru:
Auður Yngvadóttir og Skíma
Auður Björnsdóttir og Geysir
Hörður Harðarson og Skvísa
Jóna Guðmundsdóttir og Tinni
Skúli Berg og Patton

Á Patreksfirði:
Bríet Arnardóttir og Skutla
Helgi Páll Pálmason og Doppa
Ingþór Keransson og Goði
Þröstur Reynisson og Lassi

Þessi teymi eru á hinum ýmsu stigum þjálfunar allt frá því að vera nýbyrjuð að æfa og upp í það að vera komin á útkallslista.

Öll störfum við með Björgunarhundasveit Íslands og sækjum alla okkar visku þangað, einnig störfum við með björgunarsveitum í okkar heimahéraði og starfa Ísfirðingarnir með Björgunarfélagi Ísafjarðar og Patreksfirðingarnir með Björgunarsveitinni Blakk.

Allir Vestfirðingar sem hug hafa á að æfa með okkur eru velkomnir og er viðkomandi bent á að hafa samband við einhvern ofantaldra í sinni heimabyggð til að fá upplýsingar um hvar skal mæta hverju sinni.

Með bestu kveðju frá Vestfjörðum,
Bríet