Sumarnámskeið haldið á Reykhólum

Síðastliðna helgi 18. – 20. ágúst hélt BHSÍ þriðja sumarnámskeiðið á þessu ári. Vel var mætt á námskeiðið og í hús voru komnir 26 manns á föstudagskvöldinu og var yngsti þátttakandinn aðeins 5 mánaða.

Veðurspá helgarinnar var ekki glæsileg, spáði verulegri bleytu og vindsperringi en úr því rættist svo sannarlega og sólin hélt okkur félagsskap alla helgina og sýndi hitamælirinn í bílnum hjá mér um 27 stiga hita þegar heitast var. Sunnanfólkið lærði nýtt orð um helgina þegar við vestfirðingarnir fórum að dásama innlögnina.

Reykhólamenn eru höfðingjar heim að sækja og okkur var boðið í sund í þessa líka stórfínu sundlaug og síðast en ekki síst var okkur boðið að skoða Hlunnindasýninguna og bátasmiðjuna sem var virkilega gaman.

Við gistum í Álftalandi og var notalegt að vera þar. Heiti potturinn við húsið var vel nýttur og margir glaðir að geta hvílt lúin bein í hitanum.

Námskeiðið var velheppnað og mættu þar 3 teymi frá Vestfjörðum, Auður og Skíma frá Ísafirði, Bríet og Skutla frá Patreksfirði og Þröstur og Lassi frá Patreksfirði. Einnig mættu Patreksfirðingarnir Smári, Örn, Magni, Valur og Arnheiður og þökkum við þeim kærlega fyrir hjálpina um helgina þar sem þau voru sett í hlutverk fígúranta og lágu úti meira og minna alla helgina. Hlutverk fígúrantanna er ekki síður mikilvægt en leitarteymanna og námskeiðin nýtast mun betur þegar hundafólk þarf ekki sjálft að vera fela sig milli þess sem það leitar. Seinnipartinn á sunnudaginn var svo námskeiðinu slitið og fóru 5 teymi heim með nýja gráðu í farteskinu:

Björk og Krummi með C-próf
Harpa og Auðna með C-próf
Nick og Skessa með C-próf
Snorri og Kolur með C-próf
Bríet og Skutla með B-próf

Óska félögum mínum til hamingju með þennan góða árangur. Næsta námskeið verður haldið 22-24 september og þá væntanlega í Þórsmörk.

Sólskinskveðjur frá Patró
Bríet