Hundur mánaðarins að þessu sinni er hann Skutull hennar Ólínu okkar. Skutull er eins og margir af okkar vinnuhundum alger vinnuþjarkur og alltaf gaman þegar hann kemur hlaupandi til manns ! Hérna er það sem Ólína skrifaði um Skutul sinn.
Skutull er 6 ára border-collie frá Hanhóli í Bolungarvík. Mér var gefinn hann til björgunarstarfa þegar hann var 3ja mánaða gamall og þjálfun hans hófst rúmum mánuði síðar. Hann mætti á sitt fyrsta björgunarhundanámskeið á Gufuskálum aðeins fjögurra mánaða og þá kom strax í ljós hversu efnilegur hann var. Skutull var aðeins tveggja ára gamall þegar hann fór á útkallslista með B-próf og ári síðar tók hann A-próf. Síðan hefur hann farið í á þriðja tug útkalla víðsvegar um land. Skutull er mjög duglegur hundur, vinnusamur og harður af sér í leit og svæðisvinnu. En hann er líka einstaklega blíður og gáfaður hundur, barngóður og hlýðinn. Hann elskar að leika sér, sérstaklega finnst honum gaman að elta bolta, og fær aldrei nóg af því. Hann er frábær félagi og vinur.