Æfing á Suðurlandinu

Sunnudaginn fyrir viku síðan heimtaði Skutla að fá nú að hreyfa sig eitthvað af viti þar sem hún væri nú alveg orðin nógu hress eftir rifrildið og ölllllllll saumsporin 2 vikum áður. Ég lét þetta eftir henni og fór á æfingu við Sólheimakot sem er Reykjavíkurmegin á Nesjavallavegi. Okkur fannst öllum gaman að hitta sunnanliðið … þarna mættu Snorri og Kolur, Björn og Stormur, Anna, Kópur og Rjúpa, Dóri, sonur hans og allir ferfætlingarnir hans og svo mætti Ingimundur með Frosta og Skottu. Æfingin gekk vel og Skutla stóð sig vel og sárið virtist ekkert vera að há henni í leitinni. Vinafólk okkar kom og fylgdist með æfingunni og höfðu gaman af … krakkarnir fengu að fela sig og taka þátt í æfingunni. Notalegt hvað alltaf er vel tekið á móti börnunum á æfingum og að þau fá undantekningalaust að vera með og gera gagn enda eru þarna á ferðinni björgunarmenn framtíðarinnar!!

Í gær talaði ég við gistiheimili á Reykhólum og í framhaldi af því talaði ég við Ingimund og ákváðum við að bóka gistiheimilið og verður því ágústæfingin á Reykhólum. Held það sé bara fínt … þægilega stutt/langt fyrir alla og góður vegur nánast alla leið úr RVK. Svo nú er bara að láta sig hlakka til 🙂

Bríet og fylgihlutir