Heim í heiðardalinn

Já, það er alltaf gott að koma heim aftur eftir útilegu, komast í regluna og mikið er hún Skutla sammála mér með það.

Hef undanfarið hlíft henni töluvert og reynt að passa að hún sé ekki að sulla í vatni eða vera í erfiðu landslagi. En nú eru sárin nánast gróin og Skutla mín ósköp fegin að fá að sleppa aðeins úr taumnum og á æfingu. Í gærkveldi skellti hún sér svo beint út í sjó í góða sundferð og horfði svei mér þá glottandi á mig þar sem ég náði ekki að stoppa hana af.

Erum búnar að smella okkur í tvígang á stuttar æfingar og gengið bara mjög vel.

Fyrri æfingin var svona hefðbundin bara en þó reyndi Smári að leika á hana Skutlu. Hún er svo ör og fljót í förum að við höfum haft áhyggur af því að hún væri ekki að leita fyrst þegar hún leggur af stað svo í þetta sinn ákveður Smári að prufa að fela sig í byrjun svæðisins (tek það fram að ég vissi ekki af þessari leikbrellu) þegar hann leggur af stað sjáum við bara í bakið á honum upp alla hlíðina fyrir ofan okkur svo förum við í hvarf við Skutla og þegar Smári lætur vita að hann sé tilbúinn þá er náttúrulega lagt af stað … eftir bara 1/2 mín kemur Skutla og tilkynnir mér fund … í huganum blóta ég náttúrulega hundinum en hún er að láta vita og ég ákveð að treysta henni … það hljóti bara að vera einhver annar þarna í skóginum … en viti menn er ekki Smári þá bara þarna í felum … búinn að labba lengst upp í hlíð og á öðrum stað niður aftur … og Skutla búin að sýna okkur að hún leitar alveg frá upphafi, svo leituðum við að Magna og fundum hann fljótt og vel og í lokin prufuðum við að senda þá saman og fela sig og það gekk bara ótrúlega vel og Skutla kippti sér ekkert upp við að hafa tvo fígúranta á sama stað.

Næsta æfing var svolítið skemmtileg … Smári fór á fyrirfram ákv. stað í hafnargarðinum á Bíldudal. Ég lét Skutlu byrja við heimili foreldra minna og leita þaðan … á vegi okkar Skutlu verða í tvígang vinnandi menn. Hún var ekki alveg viss hvort hún væri að leita að þessum mönnum eða ekki þannig að hún tók bara á það ráð að gelta hjá þeim þar til ég var komin á svæðið og búin að sjá þá. Þegar hún varð vör við að ég sýndi þessum mönnum ekki mikinn áhuga þá hélt hún bara ótrauð áfram að leita og skilaði sínu vel að vanda. Gott fyrir okkur báðar að lenda í þessum aðstæðum og vinna úr þeim og einnig er þetta hvatning til að vinna meira innanbæjar og venjast þeim aðstæðum. Eftir hverja æfingu fer ég í huganum yfir það sem ég var að gera og í gær sá ég að gott er að vinna innanbæjar og þekkja þær aðstæður mun betur en við gerum í dag … og svo komst ég að því að uppáhaldsleikfangið hennar Skutla á alltaf að vera í bílnum því hún lítur ekki við öðru en bolta í bandi eftir leit, svo sem oft búin að sjá það áður en þarna varð ég alveg sannfærð og hver segir svo að það sé ekki hægt að kenna gömlum hundi (í þessu tilfelli mér) að sitja.

Stefnan er tekin á góða æfingu um helgina… ná langri leit og auðvitað leyfa Skutlunni að hreyfa sig út í eitt eftir veikindaleyfi undanfarinna vikna. Förum síðan á námskeiðshelgi 18. ágúst á Reykhólum og um að gera að nýta tímann þangað til vel.

Frekar leiðinlegt að geta ekki sett myndir inn með blogginu en það hlýtur að lagast fljótlega…. eitthvað vesen á blogger.com síðunni. Ætla svo að smella inn nýju myndaalbúmi fljótlega getið væntanlega kíkt á það um helgina.

kveðja frá Patró.
Bríet