Tjaldnámskeið Björgunarhundasveitarinnar var haldið í Bjarkarlundi að þessu sinni. Vel var mætt og höfðu menn á orði að betra svæði væri vart hægt að finna til leitaræfinga og almennrar útivistar ! Dæmi svo hver fyrir sig bara 🙂
Æft var stíft alla helgina að venju en dagskráin á þessum helgarnámskeiðunum er þétt þar sem að mikið er af hundum og fólki og gott er að hafa gott skipulag til að hlutirnir gangi sem best.
Á þessu námskeiði tóku allnokkrir próf, bæði C próf , A próf og A endurmöt en alltaf finnst manni jafn ánægjulegt þegar fólk tekur í fyrsta skipti B-próf en það veitir okkur ný teymi á útkallslistann okkar. Í þetta skipti tóku þau Andri og Lína B-próf. En alls í sumar hafa bæst við 4 ný teymi á útkallslistann okkar. Það eru ásamt Andra, Elín og Hnota, en Elín hefur þó verið í útköllum síðan árið fyrir lurk en Hnota er ung að árum og töluvert reynsluminni. Sandra og Atlas eru að stíga saman sín fyrstu skref og síðast en ekki síst Lukas og Benny sem eru líka að koma á útkallslistann okkar í fyrsta skipti.
Við óskum þessum teymum sérstaklega til hamingju með árangurinn og óskum þeim velfarnaðar í komandi útköllum.