Vetrarnámskeið BHSÍ 2012

Þann 16. – 22. mars síðastliðinn var haldið árlegt vetrarnámskeið Björgunarhundasveitar Íslands. Námskeiðið var haldið að Gufuskálum en æfingasvæðin sjálf voru við rætur Snæfellsjökuls. Ekki var hægt að kvarta yfir snjóleysi að þessu sinni og reyndi bæði á tæki, hunda og menn á námskeiðinu sökum veðurs.

Að venju var boðið upp á fræðslu og fyrirlestra á kvöldin. Harpa Grímsdóttir fræddi okkur um hlutverk Snjóflóðaseturs Vestfjarða sem gegnir veigamiklu hlutverki í rannsóknum og forvörnum snjóflóða á Íslandi. Hún fræddi okkur einnig um ýmislegt er tengist snjóflóðum, hvernig þau myndast og hvernig er best að varast þau. Ásmundur Jónsson fór yfir nokkra punkta tengdum fyrstu hjálp þegar komið er að snjóflóðum t.a.m. ofkælingu og fleira. Einnig var sýnt einkar athyglisverð heimildamynd sem ber heitið Norð Vestur eftir önfirska leikstjórann Einar Þór Gunnlaugsson. Myndin fjallar um snjóflóðin á Flateyri og Súðavík og því björgunarafreki sem þar var unnið.

Unglingasveit Björgunarfélags Akraness var við æfingar 16.-18. mars á Gufuskálum og hafði áhuga á að fá smá kynningu á starfi okkar og kom það í hlut Ingimundar, Maurice og Frosta að kynna fyrir þeim starf BHSÍ. Mikill áhugi var á starfinu innan hópsins og þar leynist án efa framtíðar björgunarfólk og er það von okkar að einhverjir þeirra taki þátt í að stuðla að þjálfun og framgangi hunda í björgunarstarfi í náinni framtíð.

Eins og alltaf komu fjölmargir að framkvæmd og skipulagningu námskeiðisins og kunnum við þeim öllum bestu þakkir fyrir allan sinn tíma og fyrirhöfn. Hugrún Jóhannsdóttir frá Hæl galdraði fram dýrindismáltíð á hverju kvöldi sem var gerð vel skil af svöngum og þreyttum félögum. Kunnum við henni bestu þakkir fyrir frábæran mat og skemmtilega samveru.

Vetrarnámskeið eru mikilvægur þáttur í okkar starfi sem björgunarteymi þ.e. hundur og maður. Þar æfum við m.a aðkomu að snjóflóði og lærum að bera okkur rétt að í aðstæðum sem eru oft á tíðum öfgafullar og erfiðar. Náttúruhamfarir líkt og þau mannskæðu snjóflóð sem hafa fallið á byggð á Íslandi eru sem betur fer ekki algengur atburður. Sú reynsla sem þar myndaðist hefur sýnt okkur að öflugustu „tækin“ við leit í snjóflóðum er án efa vel þjálfað teymi hunda og manna sem í samvinnu við aðrar bjargir vinna oft á tíðum ótrúleg björgunarafrek. Það er því mikilvægt að halda uppi vönduðu og metnaðarfullu starfi við þjálfun björgunarhunda við hvaða aðstæður sem koma upp. Á vetrarnámskeiðum er ekki eingöngu æfð leit og björgun heldur þreyta mörg teymi próf til að sýna og staðfesta stöðu sína og kunnáttu.

Eftirtalin teymi luku prófi á meðan á námskeiðinu stóð.

Snjóflóðaleit C-flokkur:
Guðrún Katrín og Líf
Rolando og Ýra
Halla og Pjakkur
Elli og Kvika

Snjóflóðaleit A flokkur
Jónas og Keano
Ólína og Skutull
Hafdís og Breki
Viðar og Tinni

Snjóflóðaleit A-endurmat:
Maurice og Stjarna
Nick og Skessa
Valur og Funi
Dóri og Skuggi
Þröstur og Lassi
Emil og Gríma